147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:20]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Auðvitað er það svo að við Vinstri græn höfum talað fyrir því og þess vegna, eins og ég sagði áðan, ætla ég ekki að tala gegn grænum sköttum eða einhverju öðru slíku. Ég ætla heldur ekki að tala gegn því að hér verði tekinn upp auðlegðarskattur til dæmis. Við höfum lagt fram slíkar tillögur, t.d. um auðlindagjöld.

Það er alveg ljóst að hér eru að leka út kannski fyrirframgefnar tekjur, þ.e. eins og gert var ráð fyrir t.d. í kringum ferðaþjónustuna og fleira, sem er þá verið að taka inn núna að einhverju leyti til að mæta því á öðrum stöðum. Síðan hefur einkaneyslan vaxið sem mætir þessu líka þannig að gatið verður ekki 9 milljarðar eins og kannski hefði getað orðið.

Ég held að við eigum að breikka skattstofna. Ég held að það sé skynsamlegt. Það er borð fyrir báru víða í samfélaginu, sérstaklega hjá þeim sem eru betur stæðir eins og við höfum margoft rætt.