147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður beindi til mín ákveðnum spurningum og ábendingum sem vissulega er þörf á að ræða og ég veit að þær verða ræddar í meðferð þingsins á fjárlagafrumvarpinu. Þar nefnir hv. þingmaður til dæmis mótvægisaðgerðir. Það er vissulega rétt að skattar á neyslu, hvort sem það eru virðisaukaskattur sem mun leggjast á almenna neyslu eða sértækir skattar sem leggjast á eldsneyti, kolefnisgjöld, leggjast eingöngu á þá sem nota það sem um ræðir. Það er rétt sem hefur verið bent á, og ég veit að það verður tekið til meðhöndlunar í þingnefnd, og þar vænti ég þess að horft verði til þess hvernig hægt verði að byggja upp víðar hraðhleðslustöðvar þannig að bílar nýtist betur á landsbyggðinni, rafbílar og tvinnbílar. En ég vil spyrja hv. þingmann: Hvaða mótvægisaðgerðir sér hv. þingmaður fyrir sér í þessu sambandi?