147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:43]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Eins og við var að búast fór hann svolítið í kerfislæga umræðu fyrst, hann sveik mann ekkert um það. Mig langar aðeins til að velta því upp með honum að stór hluti þessara fjárlaga er til kominn, alla vega eins og ég upplifi þau, þ.e. viðbótin eins og talað er um, er mikið til út af öldrun þjóðarinnar sem gleymdist óvart að gera ráð fyrir, fjölgun hælisleitenda sem var vitað um, a.m.k. komu drög frá Útlendingastofnun og annað sem við fengum inn í nefndina sem sagði okkur það, og út af vanfjármögnun á breyttum lögum almannatrygginga, það var líka rætt í þingsal að það væru efasemdir um að þeir fjármunir dygðu til. Nú á fjáraukalagafrumvarpið samkvæmt þingmálaskrá ekki að koma fram fyrr en í október og mig langar til að velta því upp með þingmanninum hvað honum finnst um það. Ættu ekki stóru línurnar að liggja fyrir núna? Nú er fjárlagafrumvarpið komið fram. Við eigum í rauninni ekki að vera með fjáraukalög nema bara að eitthvað bresti í samfélaginu samkvæmt hinum nýju lögum um opinber fjármál. Þá finnst mér við vera að fara að taka aftur við frumvarpi þar sem meiri parturinn var fyrirséður og ekkert er sérstaklega mikið nýtt og óvænt. En aðallega þetta: Ætli við megum búast við einhverju meiru, ég gleymdi bara að spyrja ráðherrann um það áðan, sem veldur því að frumvarpið kemur ekki fram fyrr en í október? Af hverju í ósköpunum? Hefði það ekki átt að vera lagt fram núna með fjárlagafrumvarpinu?