147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:45]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög áhugaverð spurning. Ég fór í andsvari yfir töfluna á bls. 135. Það er ekkert auðvelt að blaða í blaðsíðunum hérna og tína út hvaðan aukningin kemur. Fjáraukalagafrumvarpið er dálítið undarlegt í þessum búningi sem við erum með samkvæmt lögum um opinber fjármál. Í fjárlagavinnunni 2017 kom t.d. innanríkisráðuneytið og útskýrði nokkrar sviðsmyndir í málefnum hælisleitenda og kostnað sem var langt umfram það sem var síðan lagt fram og í rauninni það sem ríkisstjórnin lagði fram. Á sama tíma er nýbúið að setja ný útlendingalög sem gáfu ríkisstjórninni ákveðnar heimildir til að vinna þann málaflokk eða það verkefni hraðar. Maður veltir fyrir sér: Allt í lagi, þeir leggja til miklu lægri upphæð en innanríkisráðuneytið segir að sviðsmyndirnar geti endað í, það hlýtur þá að vera að þeir ætli að nota þessar breytingar á lögunum til að vinna á skilvirkari hátt. En svo kemur á daginn, mánuð eftir mánuð eftir mánuð, að við fáum viðvaranir um að verið sé að fara langt fram yfir fjárheimildir. Við erum alltaf að spyrja: Af hverju er ekki verið að gera neitt? Hvað ætlið þið að gera í þessu?

Svörin sem við fáum eru að þessu verði reddað í fjárauka. En það á ekki að gera það. Það á bara að gera það ef himinn og haf ferst eða eitthvað því um líkt. Ég átta mig ekki á því hvað við ætlum að gera við fjáraukalagafrumvarpið. Það sem ég sé jákvætt hvað það varðar í frumvarpinu fyrir 2018 er að það virðist vera búið að loka þessum hefðbundnu vanáætluðu liðum þannig að ég er bjartsýnn á framhaldið, en 2017 er enn þá vandamál.