147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:47]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég ætla bara að grípa boltann þar sem hann endaði. Ég er ekki alveg jafn sannfærð um að það sé búið að loka þessu gati. Það er alveg rétt að sumar stofnanir hafa farið fram úr og hér hafa Sjúkratryggingar Íslands gjarnan verið nefndar í því samhengi, þær hafa farið mikið fram úr og alltaf fengið viðbætur í gegnum fjáraukalög. Maður fór að halda og hefur hugsað um það hvort það sé hreinlega þannig að kostnaðurinn sé bara vanáætlaður af því að það er vitað mál að þetta fæst bætt. Það er auðvitað óásættanlegt. Hv. formaður nefndarinnar spurði mig áðan hvar væri hægt að taka til og það er t.d. hægt að velta þessu fyrir sér. Þá er ég auðvitað ekki að tala um sérmerktu S-lyfin, þar höfum við þurft að draga mjög úr því að fá ný lyf. Núna ætti að vera lag að gera það en ég hef t.d. áhyggjur af þeim lið í fjárlagafrumvarpinu og átta mig ekki á því hvort við getum átt von á því að geta flutt inn einhver ný lyf eða hvort það sé bara verið að bregðast við því sem orðið er. Það er alltaf verið að tala um að það þurfi að taka afstöðu til þess hvort þetta eigi að vaxa endalaust eða ekki en sú afstaða er aldrei tekin. Á meðan sitjum við uppi með það að ekkert breytist. Ég hef áhyggjur af því að við náum ekki enn þá utan um þetta. En fyrst og fremst er það þetta sem ég ræddi áðan og spurði þingmanninn um og átti orðastað við hann um, þ.e. að mér finnst þetta skrýtið og það leiðir hugann að því að það geti verið að eitthvað sé meira en þessir stóru liðir sem eigi hreinlega að reyna að setja inn í fjáraukalagafrumvarpið. Ég held að við séum að tala um tugi milljarða, ekki bara nokkra.