147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:49]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þetta eru vangaveltur sem er áhugavert að pæla í, einmitt þetta að fjáraukalagafrumvarpið kemur fram svona seint þrátt fyrir að við höfum vitað af þessum veikleikum í þó nokkuð langan tíma. Það er undarlegt að það sé ekki tilbúið. Ég bar upp þessa töflu á bls. 135 aðallega til að vekja athygli á þessum svokallaða útgjaldaauka upp á 18 milljarða og vekja athygli á því að þetta er ekki sanngjarn samanburður.

Jú, það er stoppað upp í þessi augljósu göt og maður vonar að það haldist en það getur vel verið að það verði svipað og áður. Það er þó verið að stoppa upp í þennan mun á lyfjum og lækningavörum sem var t.d. ekki gert áður, alla vega ekki í sama magni, þannig að vonin er sú að það verði mjög auðvelt að nota varasjóðinn væntanlega til þess að brúa það bil sem á að gera í staðinn fyrir að taka það inn í fjáraukalög.

Það er áhugaverð pæling af hverju fjáraukalagafrumvarpið kemur fram svona seint og það verður áhugavert að sjá skýringarnar með tilliti til þess hvað þarf til að fjáraukalagafrumvarp sé lagt fram samkvæmt lögum um opinber fjármál. Ég hlakka bara til.