147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:56]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég skal svara fólki á Snæfellsnesi, Vestfjörðum og í Reykjavík líka og fleirum. Þar er einfaldlega stefna okkar að arðurinn sem kemur af því að nýta sameiginlegar auðlindir dreifist ekki á jafn fáar hendur. Það er rosalega einfalt svar og mjög augljóst. Þetta er það sem við höfum horft upp á á undanförnum árum, að arðurinn af nýtingu sameiginlegrar auðlindar safnast á fáar hendur. Þetta snýst bara um það að dreifa þeim auð sanngjarnar til þeirra til sem hafa rétt á því, til nærsamfélagsins. Ef fólk getur kvittað undir það þá hlýtur það að vera sammála því að við þurfum að vinna í þá átt í sáttinni.

Útgjaldaþunginn. Það er orð sem verið er að nota hérna. En ég er ekkert viss um að það sé rétt að nota það. Hv. formaður fjárlaganefndar þarf fyrst að sannfæra mig um að um einhvern útgjaldaþunga sé að ræða. Ég hef ekki séð það. Það sem ég sé í ræðunum hérna er að hlutfallið af útgjöldum ríkisins hefur minnkað miðað við verga landsframleiðslu. Ég þarf að skoða það töluvert betur. Ef það hefur farið lækkandi þá er alls ekki útgjaldaþungi í gangi þannig að ég bara vísa því aftur til fyrirspyrjanda.