147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:57]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns beina einni fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra. Nú erum við að innleiða nýtt umhverfi og þar af leiðandi er umræðan um fjárlög kannski aðeins öðruvísi en við höfum oft séð áður. Annað ár fjármálaáætlana liggur fyrir og einn liður í því fyrir fjárlaganefnd og okkur í þinginu er að fá svokallaðar eftirlitsskýrslur úr ráðuneytunum, frá fagráðherrum þar sem þeir leggja mat sitt á það hvernig gangi að uppfylla fjárlögin, þau markmið sem ráðuneytin hafa sett sér. Ég hefði talið það mjög æskilegt að þessar skýrslur hefðu legið fyrir í júní eða í sumar þannig að hægt væri að ræða þær núna þegar við erum að tala um fjárlagafrumvarp næsta árs til að leggja mat á það hvernig fjárlögin 2017 eru að ganga. Duga þær fjárheimildir sem þingið veitti fyrir þeim markmiðum o.s.frv.? Mér finnst skipta máli að þetta komi fram hérna af því að við erum að innleiða nýja hluti. Í þessu mikla plaggi um frumvarp til fjárlaga er fjallað svolítið um fjármálaáætlun, fjármálaráð og slíkt. Ég sá hvergi minnst á eftirlitshlutverk eða álitshlutverk Byggðastofnunar sem þarf að meta byggðaleg áhrif á fjármálaáætlunina því að núna kemur útfærsla á fjárlögum og þá koma kannski upp nýjar spurningar, nýjar víddir. Kolefnisgjaldið er auðvitað eitt af því sem ég kem aðeins betur inn á á eftir.

Varðandi fjárlögin er ómögulegt annað en að byrja á tekjunum. Þá þurfum við að byrja á árinu 2017 sem var óvanalega mikið útgjaldaár. Þið munið öll, ágætu þingmenn, að við frágang fjárlagafrumvarps í desember 2016 við óvanalegar aðstæður urðu mikil útgjöld vegna ársins 2017. Engu að síður stefnir nú í að það verði meiri afgangur vegna þess að tekjurnar eru svo miklu meiri, um 25 milljarðar kemur fram á bls. 96, þrátt fyrir að útgjöldin hafi jafnvel aukist enn umfram það sem fjárlögin buðu upp á.

Varðandi 2018 hef ég þá trú að vænta megi enn frekari tekjuaukningar og að sá 44 milljarða afgangur sem hér er talað um gæti orðið meiri, m.a. vegna arðs og einskiptistekna. Í því ljósi er svolítið merkilegt að horfa á aukna skattheimtu upp á 4 milljarða sem ríkisstjórnin leggur til á neysluskatta, þ.e. eldsneytisgjöldin, áfengisgjöld, bifreiðagjöld og kílómetragjald. Hér er annars vegar um að ræða uppfærslu á verðlagi upp á 2,2% á alla línuna. Ég get alveg skilið að það sé þörf á því og þegar verðbólga er lág skiptir það ekki máli. Vilji menn hins vegar rjúfa þann vítahring að verðtryggingin sé alls staðar og allt um kring þarf ríkisvaldið stundum að ganga á undan. Það gerðum við á síðasta kjörtímabili þegar við hækkuðum ekki, það var gert til þess að rjúfa þann hring að menn hækki alltaf sjálfkrafa en hugsi ekki: Hvernig leggjast þessar álögur á einstaka hluti? Þetta finnst mér skipta máli vegna þess að það er verið að breyta álögum á einstaka aðila.

Stóra myndin er sú að hér gengur allt býsna vel, efnahagsmálin eru í góðum gangi, það er meira að segja meira jafnvægi núna en í vor þegar við vorum að ræða þessi mál af því að gengið hefur gefið eftir og annað í þeim dúr. Þess vegna finnst mér sérkennilegt og vanta betri rökstuðning fyrir auknum álögum á árinu 2018, þ.e. hækkun skatta upp á 4 milljarða. Fyrir utan verðlagsuppfærslu á hún væntanlega að koma til móts við það að menn hafa frestað hækkun á virðisaukaskattinum, sem er þá tap upp á 9 milljarða, en á sama tíma ætla menn á árinu 2019 að lækka virðisaukaskattinn úr 24% niður í 22,5%, á sömu þenslutímum og við erum enn í, sem gerir um 15–16 milljarða. Mér finnst ekki vera neitt samhengi í þessum hlutum eða við orðræðuna um að viðhalda stöðugleika og lenda hagkerfinu af skynsemi.

Talandi um jafnvægi og framsýni; vilji menn horfa á það hvernig við ætlum að tryggja að samfélagið hafi áframhaldandi kraft lengra inn í tímann er í mínum huga alveg augljóst að það þarf að lækka tryggingagjald. 90% fyrirtækja í landinu eru einyrkjar og minni fyrirtæki með starfsmenn færri en tíu eða hvort það voru 94% fyrirtækja sem eru með tíu starfsmenn eða færri. Þessi fyrirtæki líða fyrir hátt tryggingagjald, þessi fyrirtæki eru vöxtur framtíðarinnar. Þau þurfa að vaxa. Þess vegna hefði ég viljað sjá í samhengi við þessi stóru orð, jafnvægi og framsýni, að ríkisstjórnin hefði horft til þess hvernig hún ætlaði að lækka tryggingagjald gagnvart þessum aðilum.

En förum síðan í útgjöldin sem eru áhugaverðasta umræðan. Þrátt fyrir að allt sé með býsna góðum gangi og aukning hingað og þangað er það samt þannig með heilbrigðiskerfið að þegar búið er að taka út steinsteypuna og launahækkanirnar er í sjúkrahúsþjónustunni kannski aukið um 30 milljónir. Ég sagði 30 milljónir, ekki 30 milljarða eða 3. Það er skortur á hjúkrunarheimilum, það vantar meira þar. Við þurfum auðvitað líka að tækla það hvernig þessi þök á mismunandi gjöld samrýmast, eftir því hvort um er að ræða komugjöld, lyfjagjöld og stoðtækjagjöld. Tannlækningar aldraðra, það voru allir að tala um það fyrir einu eða tveimur árum að það þyrfti að auka þar einn, tveir og þrír. Það er hvergi hér að sjá, þar vantar milljarð sem gæti komið til móts við þá sem verst hafa það og satt best að segja er tannheilsa þeirra ekki nægilega góð. Á sama tíma aukast útgjöld til Sjúkratrygginga um 7 milljarða, ef ég man rétt. Með öðrum orðum, stefnan með því að grípa ekki inn í, athafnaleysisstefnan, aðgerðaleysisstefnan, er að færa fjármuni yfir í einkageirann. Það virðist sem heilbrigðisráðherra sé að mistakast að búa til tilvísanakerfi þar sem við höfum einhverja stjórn á því hvernig einkageirinn tekur við, hvernig sérfræðilæknarnir taka við og það kostar okkur í opinbera heilbrigðiskerfinu.

Þegar kemur að menntakerfinu hefur stundum verið spurt: Fyrir hvað standið þið, Framsóknarmenn? Jú, í fjármálaáætluninni sem við lögðum fram í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn átti ávinningurinn af styttingu framhaldsskólans upp á einar 400 milljónir að fara inn í framhaldsskólann. Meiri hluti fjárlaganefndar benti á það sama og bað um að þetta yrði gert. Það er ekki að sjá að það standi. Í fjármálaáætlun nýrrar ríkisstjórnar átti að taka þessa peninga og setja þá inn í ríkið. Það er gert. Háskólann vantar enn fjármuni, þar er ekki gengið nægilega langt. Ef við skoðum Vísinda- og tækniráð og nýsköpun er engin áætlun um áframhaldandi uppbyggingu. Þar er metnaðarleysi. Samt koma menn og tala um fjórðu iðnbyltinguna og hvernig við ætlum að tækla það að menntakerfið þarf að takast á við þær gríðarlegu breytingar sem eru fram undan. Hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan að ekki væri að vænta eins mikillar útgjaldaaukningar og við höfum séð síðustu tvö árin. Eðlilega, þær hafa verið mjög miklar. Hann var í raun og veru að boða status quo. Það mun ekki breytast í nýrri fjármálaáætlun í febrúar á næsta ári.

Tökum samgöngurnar, þar er verulega undarleg staða. Við Framsóknarmenn aðhyllumst það mjög að við förum í orkuskipti, förum yfir í endurnýjanlega orku á bíla, rafmagnsbíla, tvinnbíla og endurnýjanlega orku af öllu tagi, en það er ekki hægt að byrja á því að skattleggja allt í drep án þess að búa til hvata. Hér spurði hæstv. fjármálaráðherra áðan: Hvaða aðrir leiðir og mótvægisaðgerðir eru til? Hann nefndi sjálfur að almenningssamgöngur í flugi gætu verið gott mál. Já, það er mjög gott. Önnur leið væri til að mynda sú, hafi menn enn uppi hugmyndir um að leggja þar að auki veggjöld ofan á þær hækkanir allar sem er verið að leggja á þá sem þurfa vinnu sinnar vegna og búsetu að keyra um lengri veg en aðrir og þar af leiðandi fer hærra hlutfall útgjalda þeirra í bíl og eldsneyti, að taka upp skattaívilnun vegna aksturs til og frá vinnu. Það er tillaga sem við Framsóknarmenn höfum lagt fram í ein fimm, sex ár. En það er hvergi að sjá. Það vantar sem sagt hvatana til þess að fara þá leið sem við erum öll sammála um að sé skynsamleg, heldur á einhvern veginn að skattleggja án þess að það sé greint hvernig sú íþyngjandi skattlagning leggst á fólkið í landinu.

Örstutt um virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna. Meiri hluti fjárlaganefndar lagði til að komugjöld yrðu skoðuð og aðrir þættir. Hér birtist í frétt frá Rannsóknasetri verslunarinnar að í ágúst hafi verið 10% minni meðaleyðsla á hvern erlendan ferðamann. Ferðaþjónustan er búin að benda á að þetta verði mjög alvarlegt fyrir þá á landsbyggðinni sem eru í meiri fjarlægð frá höfuðborginni og frá Suðurlandi, frá Borgarfirði. Það eru þegar vísbendingar um það. Mér finnst hæstv. fjármálaráðherra ekki hafa skýrt þau rök að hafa ekki horft til niðurstaðna meiri hluta fjárlaganefndar í þessu máli og hvernig hann ætli að tryggja það að þeir landshlutar sem (Forseti hringir.) eru lengra frá höfuðborgarsvæðinu, lengra frá þunganum í ferðaþjónustunni, geti tekið þátt í því (Forseti hringir.) að byggja upp sjálfbæra atvinnu á þessum grunni. Ég get því miður ekki haldið lengra í bili en hugsanlega myndi ég koma hingað aftur, frú forseti.