147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:08]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér fjárlagafrumvarp. Það er árleg umræða sem fer fram á fyrstu dögum þingsins. Eðlilega eru skoðanir skiptar um það sem hér er lagt og borð og misjöfn sjónarmið reifuð. Mér finnst þetta hreint út sagt stórkostlegt, mér líður þannig. Mér finnst stórkostlegt hvernig efnahagslífið hér hefur aftur risið upp á ótrúlega stuttum tíma.

Fyrir ekki mörgum misserum voru menn að fást hér við mikla erfiðleika, mikinn samdrátt, mikinn vanda bæði í opinbera rekstrinum og í efnahagslífinu almennt. Ég geri ekki lítið úr því stóra verkefni sem þá var unnið en ég held að það sé hollt fyrir okkur að muna hversu óskaplega stuttur tími það er.

Það er mikill vandi að fara með þann árangur sem náðst hefur. Það er meginþema fjárlagafrumvarpsins, sem hæstv. fjármálaráðherra leggur hér fram, að fjalla um hvernig við ætlum að varðveita þann mikla árangur sem náðst hefur. Ég held að það verði raunverulega langstærsta áskorun þeirra mánaða sem nú taka við; kjarasamningar og hvernig við spilum úr þeim árangri sem áunnist hefur.

Enn og aftur leggjum við fram fjárlagafrumvarp sem innleysir verulegar kjarabætur og launahækkanir. Langstærsta verkefni þessa fjárlagafrumvarps og fjárlaga seinasta árs er í raun að ráðstafa miklum fjármunum til launahækkana. Það er réttmæt gagnrýni sem komið hefur fram, og við skulum ekki loka augunum fyrir því, að við höfum í sjálfu sér ekki hlúð að öðrum grunnþáttum á meðan við höfum verið að fást við það að borga háa kjarasamninga. Eins og ég hef áður sagt í þessum ræðustól sé ég ekki eftir launahækkunum til opinberra starfsmanna, nema síður sé, en ég get aftur á móti ekki alveg tekið undir það að það að hafa bætt kjör þessa starfsfólks og gert þessi störf eftirsóknarverðari sé í eðli sínu ekki að efla grunnþjónustu ríkisins á þann hátt sem því getur fylgt.

Við getum haft marga óskalista hér uppi í ræðupúltinu og við heyrum hljóminn úr þeim mörgum. Niðurstaðan sem birtist í fjárlagafrumvarpinu verður eðlilega til umræðu og rétt eins og hæstv. forseti sagði á þingsetningardegi er það mjög sterkt einkenni á Alþingi Íslendinga að í meðförum þingsins breytast þingmál. Við sáum það síðastliðið haust að fjárlagafrumvarpið sem þá var lagt fram af starfsstjórn tók verulegum breytingum í meðförum þingsins við einstakar aðstæður. Ég er ekki boða að þetta frumvarp taki viðlíka viðsnúningi eins og þá var en eðlilega mun frumvarpið þurfa að taka ákveðnum breytingum í meðförum þingsins.

Það eru samt meginskilaboðin sem ég vil að við áttum okkur á sem fjöllum um fjárlagafrumvarpið næstu daga og næstu vikur í störfum fjárlaganefndar hér í þinginu, og tekjumál sem því tengjast, að við erum að takast á við það að hér hefur orðið 13% raunútgjaldaaukning á ótrúlega stuttum tíma eða á tveimur árum. Og það tekur í að ráða við það.

Við sjáum líka þann bata í þessu fjárlagafrumvarpi miðað við gildandi fjárlög þessa árs að við höfum náð árangri í að lækka vaxtakostnað ríkisins um 8 til 9 milljarða. Það er árangur sem skilar okkur því að við getum farið að byggja upp á nýjan leik, að við getum farið að horfa til þeirra verkefna sem við höfum látið sitja á hakanum. Við megum aldrei gleyma því hversu gríðarlega mikilvægt það er að við notum þessi góðu veltuár, það góða ástand sem er í efnahagslífinu, til að búa okkur undir þá tíma sem óhjákvæmilega munu koma. Það getur ekki verið sams konar veisla ár eftir ár eins og við höfum upplifað undanfarin tvö ár í það minnsta. Meginverkefnið er að lækka skuldir hins opinbera og við höfum náð ágætum árangri í þeim efnum.

Það er ýmislegt sem ég sem alþingismaður get fært fram í þessum ræðustóli sem ég sakna úr þessu fjárlagafrumvarpi. Það getur líka verið langur listi. En utan um þessar staðreyndir vil ég fyrst taka, þ.e. hversu frábærum árangri við höfum náð og hversu mikilvægt er að við varðveitum hann. Ég get talið upp ýmsa galla við þetta fjárlagafrumvarp. Ég mun mæta þeim í störfum mínum í fjárlaganefnd ásamt því fólki sem þar vinnur. Við höfum ýmsa þætti á hverju ári sem við þurfum að plægja okkur í gegnum og ég er misjafnlega sáttur við það hvernig við höfum unnið úr því eða notað það í vinnu okkar.

Ég nefni það til dæmis hvernig við reiknum arðgreiðslur hjá bönkum. Auðvitað er það ekki þannig að við getum ár eftir ár reiknað með því að miklu hærri arðgreiðslur verði til ríkissjóðs, eins og reyndin hefur verið í að minnsta kosti tveimur eða þremur fjárlagafrumvörpum sem við höfum fjallað um í þessum sal á undanförnum árum, að sjálfsögðu ekki. En það er samt eitthvað við þann undirbúning og við þá vinnu sem ekki er í nógu góðu horfi. Ég mundi líka vilja horfa á eigið fé þeirra miklu eigna sem ríkissjóður á, sem bankar eru, og að við förum að skoða efnahagsreikninga þeirra og halda þannig á málum að við getum gert þá að söluvöru. Ég hefði líka viljað koma með einhverja sýn það í þessu fjárlagafrumvarpi hvenær og hvernig við ætlum að selja þær miklu eignir sem við eigum að hluta eða að einhverju leyti.

Alþingi á að hafa forystu um að ræða hvernig við ætlum að standa að þeirri bankasölu. Bankasala hefur í eðli sínu mjög neikvætt orð á sér. Þegar við ræðum það úr stólum Alþingis, þegar við fjöllum um það, fyllir það fólk því miður vantrausti. Því ætti það að vera að frumkvæði Alþingis að leita leiða og sátta um það hvernig við eigum að standa að því. Ég held að það sé hins vegar algjörlega nauðsynlegt að við ræðum það af mikilli hreinskilni og sem fyrst hvernig við ætlum að losa um þessar miklu eignir og ná þannig enn meiri árangri í því að lækka skuldir hins opinbera og búa okkur undir það sem við eigum von á, sem er þá minni vöxtur í efnahagslífi, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Verkefnin eru ærin næstu daga í því að fjalla um þetta ágæta fjárlagafrumvarp.

Nokkur umræða hefur orðið um útgjöld og mjög mikið er um að alþingismenn komi í ræðustól og vanti útgjöld hingað og þangað. Já, já. Það eru örugglega góð og gild rök fyrir því. Við tölum því miður miklu minna um hvernig við getum gert betur í ríkisrekstri, hvernig við getum notað þá fjármuni betur sem við tökum þó inn í ríkiskassann. Það er umræða sem við ættum að vera mun uppteknari af; hvernig við förum betur með það skattfé sem við innheimtum. Auðvitað á það að vera verkefni hvers tíma. Við týnum okkur svo kannski í umræðum um einstakar skattahækkanir eða kerfisbreytingar sem okkur finnast risastórar í samhengi hlutanna og gerum að stóru máli. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeirri gagnrýni, t.d. eins og gagnrýni á hækkun eldsneytisgjalda. Að mörgu leyti get ég alveg tekið undir og sett mig í spor þeirra alþingismanna sem tala t.d. um hækkun eldsneytis og áhrif þess á íbúa á landsbyggðinni. En ég kalla eftir umræðu um það í þinginu að við förum bara í gegnum það saman til hvaða mótvægisaðgerða við getum gripið.

Undir lok þessarar stuttu ræðu sem ég flyt hér langar mig að nefna það verkefni sem við tökumst á hendur í loftslagsmálum og tengjum oft samgöngum; sem er náttúrlega miklu stærra verkefni en það. Ég hef flutt um það ræður og skrifað um það greinar. Við gætum mögulega náð undraverðum árangri í loftslagsmálum mun hraðar en við áttum okkur á ef við horfðum til þátta sem standa okkur mjög nærri. Reynsla Norðmanna í þessum efnum, sem hafa um langan tíma staðið fyrir því að gefa afslátt af rafbílum eða svokölluðum tvinnbílum, er sú að þeir hafa jú náð verulegum árangri. Og við höfum náð gríðarlegum árangri í því að skipta um ökutæki í umferðinni á Íslandi. Aldrei hafa verið seldir jafn margir bílar hlutfallslega í þessum flokki. Við höfum náð þar geysilegum árangri. Norðmenn tala aftur á móti um það núna, eins og ég les fréttirnar, og það má ekki koma fyrir hjá okkur, að feta sig út úr þeim afslætti sem þeir hafa verið að gefa. Þegar innviðirnir á landsbyggðinni, vegna þessara samgangna, eru að verða tilbúnir þar fellur afslátturinn niður, þegar við úti á landi getum loksins farið að taka þátt í þessari miklu byltingu. Við þurfum því að hugsa þetta á miklu breiðari grunni en við gerum okkur grein fyrir í umræðunni um þessa tilteknu skattbreytingu sem við höfum gert að umtalsefni.

Þrátt fyrir að okkur finnist að bæta þurfi í hér og breyta þar vil ég að við gleymum aldrei þeirri stórkostlegu stöðu sem við erum komin í með íslenskt efnahagslíf. Afdrif þessa fjárlagafrumvarps og íslenskra efnahagsmál eru í okkar höndum. Hvernig við förum með það ræður miklu um það hvernig við spilum úr þessari góðu stöðu.