147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:24]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður verður að þola það þegar hann kemur hingað og boðar auknar álögur að þá er ekkert óeðlilegt við það að maður biðji um að hann svari því hvernig sú mynd á að birtast íbúunum. Ég er einfaldlega að leggja áherslu á það að veislan verður ekki endalaus. Einfaldur framreikningur útgjaldaramma er kannski ekki besta stýritækið sem við höfum. Við verðum að vera gagnrýnin á það sem við gerum. Það veit ég að hv. þingmaður skilur. Hann er gagnrýninn í störfum sínum í fjárlaganefnd. Það skal ég bara votta hér og stendur sig afar vel. Það er hlutverkið okkar. Það er hlutverkið okkar að ræða hvernig við förum betur með þá peninga sem hingað koma. Hvað erum við að gera úr þeim? Erum við að veita bestu mögulegu þjónustu fyrir þessa fjármuni? Við höfum í raun og veru engar aðrar skyldur, við sem eigum að fjalla af ábyrgð um þessa þætti.