147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:25]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég gæti örugglega spurt hann tíu spurninga að minnsta kosti, en ekki gefst tími fyrir þær.

Í umræðum um fjármálaáætlunina sagði hv. þingmaður að margt mundi gerast frá því við samþykktum áætlun að vori þar til við fengjum frumvarp að hausti sem yrði að endanlegum aðgerðum til stuðnings þeim markmiðum sem við setjum fram í fjármálaáætlun, eins og hann orðaði það. Nú er það komið fram og ég verð að spyrja hv. þingmann um prinsippatriði.

Frá hruni og fram til ársins í fyrra skiluðu tvö fyrirtæki á meðal þeirra 40 arðsömustu hér á Íslandi um 600 milljónum í arð, það voru heilbrigðisfyrirtæki. Finnst þingmanninum það eðlilegt að einstök heilbrigðisstarfsemi, sem að mestu fær tekjur sínar frá ríkinu, geti skilað gríðarlegum arði, t.d. á meðan við erum enn með mikla greiðsluþátttöku í kerfinu? Við horfum til bænda sem eru hálflaunalausir, m.a. vegna aðgerða stjórnvalda, o.s.frv. Ég held að það sé margt sem við getum rætt hér.

Þingmaðurinn talaði um að fara vel með skattfé. Hvað er að fara vel með skattfé? Um hvað hefur þjóðin rætt þegar kemur að því að fara með skattfé? Vill fólk ekki fá heilbrigðisþjónustu sem er góð og er úti um allt land? Höfum við ekki fengið hverja könnunina á fætur annarri um það? Vill fólk ekki almennt hafa góða skóla sem vel er sinnt um? Þó að við séum komin í góða stöðu núna er ekkert flókið að viðhalda henni. Þetta snýst auðvitað um það að vera fær og þora að takast á við það að raða í þessa grunnþjónustu.

Ég verð því að spyrja þingmanninn út í það hvort honum finnist þetta eðlileg skipting fjár.