147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:31]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hækkum þær tilfærslur eða framlög til almannatrygginga, eins og lögin segja til um, um 4,7%,sem er innbyggt í reglurnar. Ég mundi hafa miklu meiri áhyggjur af því ef við værum ekki að fara að þeim tilmælum. Við höfum náð að tryggja aukinn kaupmátt þessara greiðslna á undanförnum árum, verulega aukinn kaupmátt. Það er hluti af því verki okkar. Þess vegna er svo mikilvægt að við viðhöldum þeim kaupmætti sem hefur áunnist.

Það er alveg rétt sem þingmaðurinn nefnir að þetta er gríðarlega kostnaðarsamt; það kostar mikil útgjöld að stíga stór skref í þessum efnum. Ég vona að ég fari ekki með algjört fleipur, virðulegi forseti, þegar ég segi að mér sýnist að hver þúsundkall í hækkuð framlög kosti um 300 millj. kr. Það má vel vera að ég hafi algjörlega misst fæturna með því að nefna þessa tölu, en þannig er hún í höfðinu á mér. Ég er alveg tilbúinn að draga hana til baka og biðjast afsökunar á því ef hún reynist algjörlega út í hött. En miðað við þessa framsetningu eru þetta mjög miklir fjármunir. Við höfum aukið þessa fjármuni verulega. Við erum, eins og hefur komið fram í þessari umræðu, að ná 300 þús. kr. markmiðinu með ellilífeyri fyrir þá sem sem búa einir. Hvenær er síðan rétti tíminn til að gera þetta? Það er nákvæmlega núna. Við erum að láta það fylgja þeirri þróun sem er í samfélaginu. Við erum að fylgja því eftir. Við höfum náð góðum skrefum í þeim efnum. Við höfum líka, í fjármálaáætlun okkar, sýnt að við ætlum að ná stærri skrefum í að bæta þessi kjör eins og til dæmis með lækkun frítekjumarks.