147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:33]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Við fyrsta yfirlit yfir fjárlagafrumvarpið kemur enn einu sinni í ljós að erindi þessarar ríkisstjórnar er ekkert annað en að viðhalda stöðnuðu kerfi og því kerfi sem síðasta hægri stjórnin framfylgdi. Það er ekki verið að nota það svigrúm sem er til staðar núna til að búa okkur undir framtíðina og þær breytingar sem verða þar. Og þar er ekkert verið að bæta fyrir þau glappaskot sem síðasta hægri stjórn gerði sig seka um.

Það átti að breyta öllu fyrir kosningar og töluðu allir í þá átt, en það eru engar efndir. Í staðinn ræðst hæstv. forsætisráðherra á stéttarfélög og launafólk og segir að þau séu helsta ógnin við stöðugleikann. Ég get ekki verið sammála því, ég held að helsta ógnin sé ríkisstjórnin sjálf af því að hún vill ekki horfast í augu við kröfur sem fólk gerir. Þá er ég ekki að hugsa bara um launin, það sem maður fær í umslaginu, ég er að hugsa um velferðarkerfið.

Stjórnarliðum varð tíðrætt um norræna módelið í gær. Svo ég endurtaki það sem margir stjórnarandstæðingar sögðu í gær þá snýst þetta ekki bara um efnahagslegan stöðugleika, það er ekki það sem vantar fyrst og fremst upp á akkúrat núna, nei, það skortir á félagslegan stöðugleika.

Fjárlagafrumvarpið stenst auðvitað engar væntingar þegar skoðuð eru einkunnarorð ríkisins um jafnvægi og framsýni. Það getur vel verið að það sé jafnvægi fyrir einhverja aðila í samfélaginu, það er mjög erfitt að tala um að jafnvægi sé ákjósanlegt fyrir 6.100 börn sem liðu efnislegan skort árið 2015, eða öryrkja. — Hæstv. fjármálaráðherra má gjarnan brosa ef honum finnst það fyndið. Það er ekki hægt að tala um framsýni þegar ekki er sýnt fram á að menn ætli að grípa þau tækifæri og áskoranir sem bíða okkar í menntakerfinu.

Yfirlýsingar hæstv. velferðarráðherra um norrænt módel á vinnumarkaði eru ekkert nema innihaldslausir frasar. Þetta eru falleg orð sem hann hefur pikkað upp í ræðum og skýrslum, en hann þarf þá að sýna að hann ætli að standa við það ef hann meinar eitthvað með því. Annaðhvort er hann vísvitandi að afvegaleiða umræðuna eða hann skilur ekkert út á hvað þetta norræna vinnumarkaðslíkan gengur. Ég veit vegna fyrri starfa hans að það er það fyrrnefnda. Hann er að afvegaleiða umræðuna.

Fólk er sem betur fer farið að sjá í gegnum þetta enda njóta ríkisstjórnarflokkarnir stuðnings innan við þriðjungs þjóðarinnar, að ég held. Gallinn við það er að hún móttekur ekki þau skilaboð. Menn ætla að halda áfram íhaldssamri pólitík þar sem hægt og rólega er verið að grafa undan opinberri þjónustu og opinberu heilbrigðiskerfi. Það birtist ágætlega í þessum fjárlögum. Er ekki aukning á framlögum til sjúkrahúsþjónustu á SAk og LSH 39 milljónir? Það er í raun niðurskurður.

Svo við komum aftur að framsýninni. Við vitum að það eru stórfelldar breytingar á vinnumarkaðnum. Færustu vísindamenn tala um að 50% af öllum störfum muni hverfa og breytast. Auðvitað verða ný til en við þurfum þá að grípa þessi nýju störf og við þurfum strax að byrja að búa í haginn. Engu að síður er niðurskurður til nýsköpunar og rannsókna. Háskólarnir eru áfram fjársveltir og eru hálfdrættingar á við háskólana á Norðurlöndunum. Ég veit ekki hvernig þessir skólar eiga að bregðast við gjörbreyttum aðstæðum sem sníða þeim svona þröngan stakk.

Hið sama má segja um framhaldsskólana. Ég ætla ekki að halda áfram að ræða þá hér. Hæstv. fjármálaráðherra gat ekki svarað hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um það mál áðan og getur það sennilega ekki núna heldur. Manni verður alltaf hugsað til norræna módelsins vegna þess að allir tala um það, bæði stjórnarandstæðingar og stjórnarliðar. Á hinum Norðurlöndunum horfa menn í að byggja upp og fjárfesta í þekkingu og menntun samhliða uppbyggingu á velferðarkerfinu. Hér gera menn það ekki, því miður.

Eins ótrúlegt og það er verða framhaldsskólarnir áfram í fjárhagskröggum þrátt fyrir erfið ár undanfarið.

Það sem ég hef áhyggjur af er metnaðarleysi í menntamálum. Það snýr ekki bara að framtíðinni, það bitnar líka mjög hart á landsbyggðinni. Það hefur sýnt sig að gott menntakerfi á landsbyggðinni hefur reynst ótrúlegur byggðastuðningur. Nægir þar að nefna skóla eins og Menntaskólann á Tröllaskaga eða Háskólann á Akureyri þar sem menn hafa getað byggt upp ný og spennandi störf en einnig hefur okkur með þessu tekist að halda fólki í þessum byggðarlögum. Ágætt dæmi um það er ástandið í leikskólum, annars vegar á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar á Akureyri. Það er 96% fagmönnun í leikskólunum á Akureyri miðað við 36–37% hér. Þetta er ekki til einskis.

Framlög til samgöngumála eru líka mjög langt frá kosningaloforðum og kosningaloforðin byggðu á samgönguáætlun sem samþykkt var í lok október, minnir mig. Mér sýnist að viðbótarfjármagnið fari mestmegnis í eina stóra framkvæmd, Dýrafjarðargöng. Hún er mikilvæg og ég held að við getum verið sammála um það. En þá er þetta kannski upptalið þó að það sé auðvitað ekki sundurliðað. Víða um land hefur samgöngukerfið ekki náð að uppfylla lágmarkskröfur og ætla ég að vona að sem flestir stjórnarliðar hafi tekið sér bíltúr á Norðausturlandið eða á Vestfirði eða jafnvel til Borgarfjarðar eystri.

Þá er komið að öðru. Öflugt samgöngukerfi er ein meginforsendan fyrir því að dreifa ferðamönnum og laða þá út á land. Er ekki talað um að erlendir ferðamenn sem hingað koma gisti nærri 7 milljón nætur á Íslandi? En helmingur þeirra er á höfuðborgarsvæðinu og við höfum svo mikið að vinna að laða fólk út á land. Það er skynsamlegt.

Úr því að við tölum um landsbyggðina og byggðastefnu er náttúrlega brýnt að hugsa um flutningsgetu raforku um allt land. Það held ég að sé verkefni sem allir eru nokkuð sammála um. En skattkerfisbreytingarnar sem verið er að gera miða ekkert að því að auka jöfnuð og byggja undir félagslegan stöðugleika. Farin er sú leið að leggja á flata skatta, getum við kallað þá, krónutöluhækkanir. Þar á ég við hækkun á eldsneyti annars vegar og hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu hins vegar. Það mun auðvitað bitna harðar á efnaminna fólki en ekki síður á landsbyggðinni. Ég ætla ekki að fara að gagnrýna þessar hækkanir, ég hef talað um að það geti verið skynsamlegt að færa virðisauka á ferðaþjónustu upp í efra þrep. Það eru mörg góð rök fyrir hækkun á eldsneyti en slíkum skattbreytingum þarf að fylgja einhver áætlun um til hvaða mótvægisaðgerða menn ætla að grípa þar sem þær hækkanir munu kannski harðast bitna á fólki úti á landi.

Það er eitthvað lítið eftir af tímanum en ég kem þá kannski í ræðustól seinna í dag. Mig langar enn að ræða húsnæðismál vegna þess að það er alveg sérkapítuli. Hæstv. velferðarráðherra gerir sig digran hérna, nýkominn út úr skápnum sem einhvers konar teflon-krati og talar um hvað hann sé að gera í húsnæðismálum. En hann er í raun (Forseti hringir.) ekkert að gera annað að gera en að efna loforð og samninga sem búið var að gera við verkalýðshreyfinguna fyrir nokkrum árum. Það er gott að hann efni þau, en það þarf að gera miklu meira. Kannski tek ég bara umræðu við hann um það í óundirbúnum fyrirspurnum eftir helgi.