147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:45]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara í einhverja greiningu á stjórnmálum hæstv. ráðherra Þorsteins Víglundssonar. Ég er oft sammála honum. Mér finnst margt skynsamlegt sem hann segir. Mér fannst ræðan hans í gær alveg prýðileg og vildi gjarnan að hann hefði þá jafnvel verið fjórði þingmaður Samfylkingarinnar. En staðan er hins vegar sú að hann situr í stjórn sem framfylgir ekki því sem hún segir. Við horfum upp á að t.d. árið 1998 var skattbyrði lægstu launa 4%. Nú er skattbyrði lægstu launa 16%. Ef hann meinti eitthvað með því sem hann segir mundi hann grípa til skattkerfisbreytinga sem breyttu þessu en færi ekki í einhverjar aðgerðir sem munu kannski leggjast langþyngst á launalægsta fólkið.

Árið 2014 töldu 12% landsmanna sig eiga erfitt með að ná saman endum. Það var auðvitað fyrir hans tíð. Ef hæstv. ráðherra meinar það sem hann segir þá leggst hann á árarnar með okkur hinum og reynir að breyta þessu, reynir að ná þessu niður.

Ég las grein í morgun eftir formann Öryrkjabandalagsins, Ellen Calmon. Hún lýsir ekki þeim veruleika sem hæstv. forsætisráðherra lýsir. Ég veit að það er borð á milli þeirra tveggja, hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, en þeir hljóta að tala saman á ríkisstjórnarfundum. Þeir verða að fara að gera það. Og Þorsteinn, hæstv. ráðherra, verður að fara að segja hæstv. forsætisráðherra, ef hann er samkvæmur sjálfum sér, að hann ætli ekki að láta þetta líðast og að nú ætli hann að berja í borðið og fara að vinna eftir gildum jafnaðarstefnunnar.

(Forseti (JSE): Forseti vill minna á að þingmenn og ráðherrar eru ávarpaðir með fullu nafni.)