147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:51]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það er af mörgu að taka í þessu fjárlagafrumvarpi fyrir 2018. Það byggist á nýjum lögum um opinber fjárlög, er fyrsta fjárlagafrumvarpið sem unnið er eftir nýju verklagi. Hér eru allir að fóta sig eftir þessu nýja verklagi, heyrist mér, bæði í umræðunni í sal um fjármálastefnuna og fjármálaáætlunina og einnig í fjárlaganefnd. Þar þurfum við að taka sveitarfélögin með okkur inn í nýja hugsun, hefur mér fundist. Í fjármálaáætlun eru helstu línur lagðar en smáatriðin eru útfærð í fjárlögum, eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson fór vel yfir í ræðu sinni hér fyrr í dag.

Það er alveg ljóst að það mun taka einhver ár að koma á fullkomnu verklagi sem fylgir nýjum lögum um opinber fjármál. En á morgun fáum við tækifæri til að spyrja ráðherra hvers ráðuneytis fyrir sig frekar út í hlutina og fá nákvæmari svör. Mér heyrist á þessari umræðu hér í dag að verið sé að fara gróft yfir. Menn velja sér málaflokka. Ég ætla að gera það líka.

Ég tek þátt í þessari umræðu í fyrsta skipti og mér finnst fróðlegt að heyra hvernig hv. þingmenn fara í 1. umr. um jafn viðamikið plagg og fjárlagafrumvarpið er. Það er ljóst að stóra verkefnið er að varðveita þann góða árangur í efnahagsmálum sem náðst hefur á undanförnum misserum. Stóru fréttirnar eru þær, ef ég gríp inn í það fyrsta og helsta sem kemur fram í frumvarpinu, að komið er til móts við gagnrýni ferðaþjónustunnar um skamman aðlögunartíma hvað varðar virðisaukaskattshækkun sem átti síðan að verða lækkun, en almennt þrep lækkar í 22,5%. Skattaívilnun ferðaþjónustunnar fellur því brott. Því ætti vöruverð að lækka. Vonandi verðum við samkeppnishæfari.

Mig langar að byrja á að tala um græna skatta, sem eru hluti af stefnu stjórnvalda í umhverfisvernd og loftslagsmálum, en virðisaukaskattur fellur niður við innflutning eða kaup á vistvænum bifreiðum. Það er framlengt til þriggja ára og markmið sett um fjölda bíla. Kolefnisgjald er hækkað; gjald með skýra tengingu við losun gróðurhúsalofttegunda. Olíugjald er hækkað umfram bensíngjald í ljósi losunar. Frekari skref eru jafnframt undirbúin: uppbygging innviða, nýir hvatar fyrir einstaklinga og fyrirtæki og síðan aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Þessir grænu skattar eru í mínum huga ekki einungis tekjuöflun heldur stórt og nokkuð djarft skref í átt að breytingum í rétta átt hvað varðar loftslagsmál. Kannski er það líka svolítið ný hugsun sem þarf að venjast.

Eitt markmið með skattlagningu ökutækja er að draga úr losun eins og ég nefndi áðan með því að ívilna sparneytnari ökutækjum og ökutækjum sem ganga fyrir vistvænni orkugjöfum. Nú þegar er mikið úrval til af slíkum bílum. Mikil aukning hefur átt sér stað í innflutningi á slíkum bílum. Það er fagnaðarefni. Kannski virka bæði umræðan og þessar aðgerðir í rétta átt, en uppbygging innviða fyrir þessi tæki þarf að vera hröð. Mín skoðun er sú að við verðum til dæmis að hætta að gefa rafmagn hér og þar á kostnað sveitarfélaga. Við þurfum að breyta um verklag þar til þess að innviðauppbyggingin geti hafist fyrir alvöru, til dæmis á landsbyggðinni.

Ef horft er á stóru línurnar ætlar ríkisstjórnin sér að forgangsraða í þágu heilbrigðis- og velferðarmála eins og líka hefur komið fram. Þunginn í heilbrigðismálum er aðallega bygging nýs Landspítala sem verður mikið framfaraskref, bæði er varðar starfsaðstöðu fyrir það fólk sem þar vinnur og einnig fyrir þá sem þiggja þjónustu.

Hitt sem mig langar til að varpa ljósi á hvað varðar heilbrigðismálin er heilsugæslan; hún verður styrkt sem fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Þverfagleg þjónusta heilsugæslunnar verður styrkt. Það felur meðal annars í sér afar mikilvægt verkefni sem er geðheilbrigðisteymi. Mér finnst það ekki hafa fengið nógu mikla umfjöllun miðað við það hve mikilvægt verkefni það er og árangursríkt. Fyrsta teymið var sett upp í Breiðholti og þjónustar austurhluta Reykjavíkur. Næst verður farið í vesturhlutann og í þriðja áfanga verður farið í sveitarfélög í Kraganum.

Það verkefni harmónerar mjög vel við markmið allra þeirra sveitarfélaga sem hafa sett sér lýðheilsustefnu. Sums staðar er hreinlega beðið eftir því að hefja samstarf við ríkið um þetta mikilvæga og þarfa verkefni. Aðgerðaáætlun sem fylgir lýðheilsustefnu sveitarfélaga felur einmitt í sér að auka samstarf við heilsugæsluna og bæta nærþjónustu hvað varðar líðan og geðheilbrigði. Í ljós hefur komið að færri sækja þjónustu á geðdeild í staðinn og úrræðið bætir þjónustuna við þá sem þurfa á henni að halda.

Við lok tímabils þessarar ríkisfjármálaáætlunar eiga framlög til heilsugæslunnar að aukast um 910 milljónir einmitt í þessu skyni. Til lengri tíma litið er ég nokkuð sátt við framtíðaráform í heilbrigðismálum hvað varðar byggingu spítalans. Greinilegt er að þunginn verður þó á næsta ári og því þarnæsta. Það meginmarkmið sem er fram undan er að setja fram heildstæða stefnu með skýrum markmiðum fyrir heilbrigðisþjónustuna, við verkaskiptingu og samvinnu innan heilbrigðisþjónustunnar.

Ef ég kem hér í lokin örstutt inn á menntamálin þá er ég auðvitað sammála því að farsælla hefði verið að auka við framlög til menntamála. En það þarf víst að forgangsraða. Það er ákvörðun ríkisstjórnar að forgangsraða í heilbrigðis- og velferðarmálum. Unnið verður að því að bæta þá stöðu eins og fram kemur í fjárlagafrumvarpinu. Í heildina hækka framlög til háskólastigs umfram verðlagsforsendur, auk þess sem stofnframlag til byggingar Húss íslenskra fræða kemur þar til viðbótar. Ég vil ítreka að ég tek undir að það hefði verið okkar uppáhaldsaðgerð í Bjartri framtíð að auka þar við.

Ég ætla ekki að bæta meiru við. Ég sé að félags- og jafnréttismálaráðherra er hér á eftir mér í ræðustól og ætla því frekar að gefa honum orðið varðandi velferðarmálin. Ég hef lokið máli mínu í bili.