147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[13:42]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Ég hjó eftir því að hann aðskildi persónu sína sem ráðherra og sem þingmann Viðreisnar hér í lokin. Kannski veitir ekki af. Við höfum verið að furða okkur á því sem höfum verið að fylgjast með umræðum í gær og í þessari umræðu að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar Viðreisnar eru fyrst og fremst að tala fyrir stefnu síns flokks. Útskýra stefnu síns flokks, fara yfir sjálfsmyndina, við erum bæði hægri, vinstri, alls konar, við erum ekki Sjálfstæðisflokkurinn. Hæstv. ráðherra hefði bara getað komið hingað upp og sagt okkur það: Við erum ekki Sjálfstæðisflokkurinn, hvað sem þið haldið. Ég er þingmaður Viðreisnar og ekki bara hæstv. félagsmálaráðherra. Mér finnst þetta dálítið kúnstugt, ef ég á að vera alveg heiðarleg, því að þessir flokkar sitja saman í ríkisstjórn. Við vorum í umræðum í gær um stefnu þessarar ríkisstjórnar. Fjárlögin — ég vænti þess að fjárlögin séu fjárlög ríkisstjórnarinnar en ekki bara hæstv. fjármálaráðherra, þingmanns Viðreisnar svo að það sé tekið fram.

Eða hvað? Ég vil spyrja því að ég les það í fjölmiðlum að það sé nú kannski ekki þingmeirihluti fyrir öllu því sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu. Ég vil í ljósi þessarar leitar að sjálfsmynd sem Viðreisnarþingmenn eiga í í opinberum umræðum — og mér finnst það bara mjög jákvætt að þeir taki þetta bara út og losi það hér í opinberri umræðu — spyrja hvort hæstv. ráðherra telji að það sé meiri hluti fyrir frumvarpinu. Hvort hæstv. ráðherra telji að það sé meiri hluti fyrir þeim skattatilhögunum sem eru lagðar til í frumvarpinu og hann fór yfir í ræðu sinni, í ljósi þess að ekki virðist vera fullkomin eining um það í stjórninni frekar en margt annað.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra sem talar um mikilvægi þess að gengið sé varlega um gleðinnar dyr þegar kemur að útgjöldum hvað hann hafi þá að segja um frumvarp samflokksmanns síns í Viðreisn, hæstv. fjármálaráðherra, þar sem kemur fram í frumvarpi hæstv. ráðherra að það liggi fyrir að brottfall tekjustofna á undanförnum árum geri að verkum — þetta kemur fram á síðu 95 í frumvarpinu ef hæstv. ráðherra vill kynna sér það — að þunginn sé orðinn mjög mikill á meginskattstofna, eins og virðisaukaskatt, tekjuskatt einstaklinga og tryggingagjald, sem felur í sér að þegar um hægist (Forseti hringir.) munu tekjurnar taka mun stærri dýfu en útgjöldin með tilheyrandi áhrifum á afkomu til hins verra og skuldasöfnun hefst að nýju. Sem sagt: (Forseti hringir.) Það er búið að fella niður það marga tekjustofna að það er of mikill þungi á þeim sem eru eftir. (Forseti hringir.) Væri ekki ráð að bregðast við þessu í frumvarpi hæstv. ráðherra Viðreisnar?