147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[13:45]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir andsvarið. Sjálfsmynd okkar var aldrei týnd, en það virtist sem æðimargir misskildu hana. Okkur fannst einmitt ágætistilefni í þessari stefnuumræðu að skerpa á skilningi annarra á því hvaðan við kæmum.

Að sjálfsögðu er þetta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Við stöndum að því og þeim áherslum sem þar eru settar fram með sama hætti og við stóðum að þeim áherslum sem settar voru fram í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem fjárlagafrumvarpið byggir á.

Það virðist reyndar svo í þessari umræðu að þingmenn sjálfir eigi mjög erfitt með að sætta sig við þann aga sem var settur í ríkisfjármálin með lögum um opinber fjármál og mundu gjarnan vilja getað brugðið meira frá því en hér er gert, en lagt er upp með aðhaldssama ríkisfjármálastefnu til þess að vega upp á móti þeirri miklu þenslu sem er í hagkerfinu, koma í veg fyrir að hér brjótist fram verðbólga með þörf á vaxtahækkunum. Þetta er reyndar það sem við höfum ítrekað verið vöruð við og ég kom að ágætlega áðan, og Seðlabankinn varar reyndar mjög skýrt við, að aðhald ríkisfjármálanna verði að vera til staðar ef ekki eigi að koma til frekari vaxtahækkana.

Er meiri hluti fyrir fjárlagafrumvarpinu? Já, það held ég að sé alveg örugglega. En það væri vanvirðing við þingið að ætla að þingið muni ekki taka málin til efnislegrar umfjöllunar og einhverjar breytingar kunna að verða þar á. Að sjálfsögðu mun fjárlaganefnd fara yfir málið, að sjálfsögðu eru umdeild mál, innan flokka líka. Ég er enginn sérstakur aðdáandi skattahækkana en hér erum við að tala um eðli grænna skatta, hverjir þeir eigi að vera og hvert umfang þeirra eigi að vera, og hvað þurfi til til að hvetja til breyttrar hegðunar til að við getum staðist skuldbindingar okkar í loftslagsmálum, sem er mjög mikilvægt og við styðjum heils hugar.

Þegar talað er um að þrengja að tekjustofnum, breikka gjaldstofna o.s.frv., er það allt saman mjög huggulegt tal fyrir skattahækkanir. Ég er einfaldlega andvígur umfangsmiklum skattahækkunum þegar ríkið hefur meira en nægar tekjur. Það getur vel verið að ríkið þurfi að takast á við áskoranir í framtíðinni sem við munum þá bregðast við með viðeigandi hætti þegar þar að kemur. En við þær kringumstæður sem nú eru er ekki ástæða til víðtækra skattahækkana.