147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[13:47]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég fæ ekki skilið hvernig hæstv. ráðherra og hv. þingmaður Viðreisnar fær það út að mjög mikilvægt sé að hafa aðhald en eigi að síður megi ekki innheimta tekjur því það er það sem Seðlabankinn hefur verið að segja á undanförnum árum, eins og hæstv. ráðherra ætti að vera kunnugt. Seðlabankinn hefur einmitt verið að benda á að það sé varhugavert að fella niður tekjustofna, það dragi úr aðhaldi ríkisfjármála.

Hér kemur hæstv. ráðherra upp og segir: Það er mjög mikilvægt að hafa aðhald, en það má bara alls ekki afla meiri tekna. Sami hæstv. ráðherra sagði um daginn opinberlega að honum fyndist jöfnunarhlutverk skattkerfisins mjög mikilvægt. Finnst honum þá ekki að nýta eigi skattkerfið í það að draga úr þeirri raunverulegu misskiptingu sem er í landinu sem felst í eignaskiptingunni, sem felst í vaxandi misskiptingu auðsins á Íslandi? Á því er auðvitað hægt að taka t.d. með því að setja á hóflegan auðlegðarskatt eins og við þingmenn Vinstri grænna höfum lagt til. Eða finnst hæstv. ráðherra þá gengið of langt í jöfnunarhlutverki skattkerfisins? Vill hæstv. ráðherra hafa jöfnunarhlutverk skattkerfisins hófstillt þannig að það sé tryggt að misskipting auðsins haldi áfram að aukast, eins og mér sýnist að sé ætlunin með þessu frumvarpi?