147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[13:50]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra Þorsteini Víglundssyni fyrir ræðu hans og jafnframt fyrir að taka þátt í umræðunni. Ég vænti þess að geta líka hlustað á hann á morgun þegar kemur að einstökum málaflokkum.

Ég ætla samt aðeins að fá að hoppa inn í málaflokkana sem heyra undir ráðherrann og spyrja hann um þá. Ég á erfitt með að sjá þó að hér sé talað um aukin framlög uppreiknuð frá fjárlögum 2017 yfir til 2018 til öryrkja sérstaklega, virðist það fyrst og fremst tengjast fjölgun öryrkja. Ekki er verið að setja fjármuni til þess að mæta fyrirhuguðum lagabreytingum. Er ekki möguleiki á því að flýta þeim lagabreytingum sem boðaðar voru í fjármálaáætluninni þannig að hægt væri að tryggja öryrkjum þar sem mun hærra hlutfall fólks býr við fátækt og á minna í lífeyrissjóðum, minni eigur, sambærilegar kjarabætur eins og samstaða var um að veita eldri borgurum? Hvað getum við gert í sameiningu til þess að reyna að afgreiða það mál sem ég veit að ráðherrann hefur unnið að í nokkurn tíma? Hvað getum við gert til að flýta afgreiðslu þess máls hér í þinginu?