147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[13:55]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Forseti. Ég gæti náttúrlega lofað upp í ermina á hæstv. fjármálaráðherra varðandi hvort tveggja. Staða málsins er sú hvað varðar síðari spurninguna sem snýr að persónuafslættinum sjálfum, að verið er að skoða, eins og við höfum kynnt, hugmyndir sem snúa að möguleikum á að breyta þessu fyrirkomulagi okkar. Ég held raunar að einn helsti galli núverandi fyrirkomulags persónuafsláttar sé hversu dýrt það er fyrir ríkissjóð að hreyfa hann. Það gagnast jú öllum tekjuhópum þegar persónuafsláttur er hækkaður. Ég held að við gætum horft til skattkerfa sem væru sveigjanlegri hvað þetta varðar og auðveldari að hreyfa til, sér í lagi með hagsmuni tekjulægstu hópanna í huga.

Hvað varðar sérstakar hækkanir á atvinnuleysisfjárhæðinni þá höfum við ekki skoðað, ekki enn sem komið er í það minnsta, hækkanir á borð við það sem við höfum séð í almannatryggingum og í núverandi atvinnuástandi hefur raunar ekki verið (Forseti hringir.) mikill þrýstingur til þess.