147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[13:58]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er þeirrar skoðunar að á endanum sé tómt mál að tala um breiða eða granna skattstofna, á endanum er þetta allt saman sótt til okkar sem hér búum. Við borgum þetta á endanum ýmist beint eða óbeint í gegnum hvort sem heldur er beina tekjuskatta, virðisaukaskatt, vöruskatta eða hvaða öðru nafni við kjósum að nefna skattana hverju sinni. Það breytir því ekki að það eru auðvitað mörg tækifæri til eignarskatta, sem ég er persónulega ekkert sérstaklega hrifinn af, hátekjuskatta, og það er gott að hafa í huga að við erum með marglaga eða margskipt tekjuskattskerfi með bæði tveimur tekjuskattsþrepum og áhrifum persónuafsláttar. Ég held að það sé miklu betra að hafa skattkerfið okkar tiltölulega einfalt og skýrt. Þetta er á endanum sótt í sama vasann og það er þó betra að virkni þess sé skýr.

Ég er ekki alveg sammála því mati sem kom fram í umræðunni áðan að það setji okkur í sérstaklega viðkvæma stöðu þegar saman dregur í efnahagslífinu að nýju því að á endanum er þetta sótt á sama stað, hvort sem skatttegundirnar eru endalaust margar eða tiltölulega fáar og breiðar. Ég er persónulega hrifnari af einföldu skattkerfi með breiðum skattstofnum en ekki mjög mikilli og flókinni flóru ýmissa skatttegunda sem gerir skattkerfið mjög ógagnsætt og erfitt.