147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:03]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er merkilegt að fylgjast með þessari umræðu, ekki síst þeirri sem var að ljúka um tekjustofna ríkisins og hins opinbera og hvernig fólk sér það nákvæmlega fyrir sér. Ef við viljum að skattkerfið þjóni sínu jöfnunarhlutverki þá verður það eðli máls samkvæmt flóknara en svo að það sé hægt að hafa flata skattprósentu. Það er eðli máls samkvæmt. Þess vegna höfum við haft mismunandi skattprósentu í tekjuskattskerfi, þess vegna höfum við haft mismunandi skattprósentu í virðisaukaskattskerfinu. Þó að einhverjir hv. þingmenn og jafnvel hæstv. fjármálaráðherra hafi talað fyrir því að þar verði aðeins eitt skattþrep, þá er staðreyndin sú að langflestar þjóðir nýta sér sveigjanleika kerfisins til þess að skattleggja fólk, vörur og eignir með mismunandi hætti til þess að ná fram þessu jöfnunarhlutverki.

Ég vil vekja athygli á því, af því að því hefur verið haldið fram að hér séu allir sammála um jöfnunarhlutverk skattkerfisins, að það er svo augljóst bara af þessari 1. umr. um fjárlagafrumvarpið að það er bullandi pólitískur ágreiningur. Hins vegar þykir gott að segjast vera með jöfnuði um þessar mundir, a.m.k. ef fólk er í leit að sjálfsmynd og vill staðsetja sig einhvers staðar á hinu pólitíska litrófi og milli hægri og vinstri, þá er gott að vera með jöfnuði, en þá verður fólk líka að láta aðgerðir, hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar, fylgja orðum sínum. Við verðum að sjá þess stað til að mynda í fjárlagafrumvarpinu ef menn eru skyndilega orðnir svo gríðarlega áhugasamir hér um að auka jöfnuð.

Ég benti á að á bls. 94 og 95 er líka vakin athygli á því að það fylgja því ákveðnir hagstjórnarlegir veikleikar að hafa fellt niður tekjustofna á undanförnum árum. Það gerir að verkum að á þá tekjustofna sem eftir standa leggst aukinn þungi. Mér finnst mjög mikilvægt að þetta sé dregið fram því þetta kemur beinlínis fram í frumvarpinu sjálfu og mikilvægt að við tökum mark á þeim skilaboðum sem þar er að finna. Það er verið að vara okkur hv. þingmenn við að sú áhersla sem hér hefur birst á að það eigi eingöngu að nýta hagsveifluna til uppbyggingar og ekki eigi að fjölga tekjustofnum getur verið varhugaverð. Við fáum þetta bara svart á hvítu í frumvarpi frá hæstv. fjármálaráðherra Viðreisnar.

Hér hefur líka verið varað mjög við því að auka útgjöld, en staðreyndin er sú að samneyslan sem hlutfall af vergri landsframleiðslu er að dragast saman. Hún hefur verið að dragast saman á undanförnum árum. Hún heldur áfram að dragast saman með þessu fjárlagafrumvarpi. Það er auðvitað pólitísk stefna, annars vegar að breikka ekki tekjustofnana og hins vegar að draga saman samneysluna. Það er niðurstaðan í fjárlagafrumvarpinu.

Þegar við skoðum hvað er hér verið að leggja til þá er auðvitað fjarri því að staðið sé undir þeim væntingum sem voru gefnar fyrir kosningar, og það er ekki ár liðið frá kosningum, um að hér ætti að fara í uppbyggingu innviða. Það er algjörlega fjarri því.

Hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn meiri hlutans hafa haldið því fram að verið sé að koma til móts við vanda háskólanna. Hefur þetta fólk heimsótt háskólana? Hefur það talað við fólkið sem er að vinna í háskólunum? Áttar það sig á því hvernig þeir eru keyrðir og reknir áfram með stundakennurum í sívaxandi hlutfalli af því að það er ekki hægt að ráða inn kennara í fastar stöður? Hér er talað um að það sé bara eðlilegt að fækka nemendum á háskólastigi, eins og ég sagði í gær, af því að langskólamenntun hefur verið sérstakt vandamál hérna. Nei, ég hef nú ekki orðið vör við það.

Hér talar fólk um að fjárfesta í menntun, rannsóknum og nýsköpun. Það sagði hv. þingmaður Viðreisnar og hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra áðan. Jú, fjárfestum í rannsóknum og nýsköpun. Hvað erum við að tala um?

Ég fer hér upp og skoða nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar. Það er ekkert verið að fjárfesta í því. Það er verið að halda kyrrstöðu, ef þá það. Það er ekkert sótt fram í nýsköpun og rannsóknum. Það er ekki staðið við samþykkt Vísinda- og tækniráðs um að framlög til háskólanema eigi að færast upp í meðaltal OECD. Við erum enn þá helmingi fyrir neðan Norðurlönd þegar kemur að framlögum til háskóla.

Hér er reynt að setja inn að mér sýnist einhverjar nokkur hundruð milljónir í háskólakerfi þar sem bara Háskóla Íslands vantar einn og hálfan milljarð. Þar er fólk sem opnaði sínar dyr meðan hér gekk yfir kreppa og fólk missti vinnuna, þá opnuðum háskólarnir sínar dyr, hleyptu fólki í nám þannig að það náði að skipta um störf, ná sér í menntun. Þessir skólar allir sem einn, háskólarnir í landinu, öxluðu sína samfélagslegu ábyrgð í trausti þess að Alþingi sem bað þá um að gera þetta myndi svo bæta þeim það upp og tryggja að þessar stofnanir gætu haldið áfram að vera flaggskip fyrir rannsóknir, nýsköpun og vísindi í íslensku samfélagi sem er það sem okkar framtíð byggist á. Það er ekki staðið við það. Hér stendur allt í stað í nýsköpun, rannsóknum og vísindum, alveg sama hvað hv. félags- og jafnréttismálaráðherra Viðreisnar sagði áðan um að það væri sérstök áhersla ríkisstjórnarinnar. Það er ekki hægt að koma hér upp og tala með þessum hætti, herra forseti. Það er eiginlega sama hvert ég lít í menntamálum. Þetta eru mikil vonbrigði.

Ég verð þó líka aðeins að ræða um það sem virðist enn þá vera ágreiningsefni sem eru hinar fyrirhuguðu breytingar á virðisaukaskatti. Eftir þessar breytingar verður virðisaukaskattur á gistingu á Íslandi næsthæstur í Evrópu. Á þetta hafa Samtök ferðaþjónustunnar bent. Þessi breyting er lögð til til þess að jafna stöðu ferðaþjónustunnar við aðrar atvinnugreinar á Íslandi. En er það svo? Í hvaða umhverfi starfar ferðaþjónustan? Starfar hún ekki í alþjóðlegu umhverfi? Erum við ekki með flokka í ríkisstjórn sem eru einmitt að tala um að það skipti máli að við séum í alþjóðlegu umhverfi? Það sem er verið að gera með þessari skattbreytingu er að það á að halda áfram að vera með gistináttagjald, sem tíðkast mjög víða í Evrópu og raunar hafa allir flokkar verið sammála um, en þar er hins vegar virðisaukaskattur á þessari sömu gistingu miklu lægri. Með þessum aðgerðum er því verið að veikja samkeppnisstöðu ferðaþjónustunnar. Því var lofað í vor að greiningar myndu verða gerðar. Þær myndu liggja fyrir á því hvaða áhrif þetta hefði á samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar því ferðaþjónustan hefur varað við því að þetta skipti máli, ekki síst fyrir smærri fyrirtæki í ferðaþjónustu úti um land. Hvar er sú greining? Hún liggur ekki fyrir, ekki eftir því sem ég finn. Mér þætti vænt um ef mér væri bent á hana ef hún liggur fyrir. Mér sýnist að ætlunin sé að draga stórlega úr samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar. Hver er niðurstaðan af því? Jú, hún er aukin samþjöppun í ferðaþjónustu.

Þá fer ég að velta því fyrir mér hvort þetta sé nú kannski lýsandi fyrir atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar, ef hægt er að tala um ríkisstjórn þar sem bara einn flokkur talar eins og hann sé í ríkisstjórn og hinir tala bara fyrir sig. Er stefna ríkisstjórnarinnar eða þessara þriggja flokka sem eru saman í ríkisstjórn að auka samþjöppun í öllum greinum? Hver verður afleiðingin af aðgerðum hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra? Það væri nú rétt að ræða það í tengslum við fjárlagafrumvarpið því þar er ætlunin að veita skattfé í að fækka sauðfé og sauðfjárbændum og vinna á lambakjötsfjallinu sem við erum núna búin að fá fréttir um að sé ekki fjall heldur meira hóll eða eitthvað slíkt, þannig að birgðastaðan sem við kölluðum eftir greiningu á liggur ekki fyrir. En segjum sem svo að þessar aðgerðir verði eins og þær hafa verið kynntar. Verður afleiðingin ekki aukin samþjöppun í landbúnaði?

Hvaða áhrif nákvæmlega munu hugmyndir þær sem hafa verið kynntar í sjávarútvegi af hálfu Viðreisnar hafa á sjávarútveginn? Munu þær endilega skila auknum tekjum í ríkissjóð? Ekki endilega. Munu þær auka byggðafestu í sjávarútvegskerfinu? Nei, ekki endilega. Hvaða áhrif munu þessar hugmyndir hafa? Aukinni samþjöppun í sjávarútvegi. Er þetta atvinnustefna ríkisstjórnarinnar? Og á að fara kannski í virðisaukaskattshækkun í ferðaþjónustu til að tryggja að hægt sé að ná líka fram aukinni samþjöppun í ferðaþjónustu?

Mér finnst þetta áhugaverð spurning og eitthvað sem við munum þurfa að ræða á þinginu í vor því að það að reyna að átta sig á því hvaða stefna nákvæmlega kemur frá þessari ósamstæðu ríkisstjórn er flókið. Það er flókið. En með því að kafa ofan í gögn mála og reyna að skilja hvað nákvæmlega þessir þrír ólíku flokkar sem virðast svo sammála um fátt eru að segja, þá stendur a.m.k. upp úr að þær aðgerðir sem er verið að grípa til miða í átt að aukinni samþjöppun í öllum atvinnugreinum. Þær miða ekki að því að auka nýsköpun og rannsóknir, því þær á ekkert að styrkja meira. Þær miða ekki að því að byggja upp þekkingarsamfélag, þekkingaratvinnuvegi, því það er ekki komið til móts við augljósa fjárþörf háskólanna sem eru undirstöðustofnanir í því þekkingarsamfélagi. Hér er verið að reka atvinnustefnu sem birtist í fjárlögum, birtist í ræðu og riti hjá talsmönnum þessara þriggja flokka sem miðar að aukinni samþjöppun í atvinnugreinum, í frumatvinnugreinum, engri þróun, algerri stöðnun í nýsköpun, rannsóknum og þekkingargreinum. Þetta er niðurstaðan.

Og ég er ekki einu sinni byrjuð að tala um skapandi greinar. Þegar við skoðum hvernig menningin og listirnar fara út úr þessu fjárlagafrumvarpi þá held ég að mörgum muni bregða í brún. Þar blasir bara auðnin við, sýnist mér, í fjárlagafrumvarpinu. Það er ekkert verið að bæta í.

Ég get síðan ekki látið hjá líða að nefna framhaldsskólana að lokum. Hér er verið að staðfesta þá stefnu sem birtist í fjármálaáætluninni. Það er verið að svíkja loforðið sem var gefið af fyrri ríkisstjórn um að einhliða ákvörðun um að stytta framhaldsskólanám myndi ekki leiða til þess að fjármunir yrðu teknir út úr framhaldsskólakerfinu heldur átti að nýta þá fjármuni að auka gæði. Ég segi bara við stjórnvöld sem taka svona lítið mark á þeim yfirlýsingum sem áður hafa verið gefnar: Hvernig ætla þessi stjórnvöld nákvæmlega að byggja upp traust í samfélaginu? Hvernig ætla þessi stjórnvöld nákvæmlega að fara til að mynda inn í þær kjaraviðræður sem eru fram undan þegar loforðin eru svikin á minna en ári, herra forseti?