147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:20]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir. Já, ég skil hvað hv. þingmaður er að fara og til þess erum við að eiga þessa umræðu, er það ekki? Ég nefndi áðan framhaldsskólana sérstaklega og af því að við erum að tala um jöfnunarhlutverk skattkerfisins þá eigum við tvö jöfnunartæki sem gefast best, það er skattkerfið og bótakerfið annars vegar og hins vegar er það menntakerfið.

Við höfum fengið fréttir af því að framhaldsskólarnir eru í þeirri stöðu að fatlaðir nemendur sem eru í fyrsta forgangi um inntöku í framhaldsskóla fá ekki einu sinni pláss í framhaldsskólum. Fatlaðir nemendur fá ekki pláss í framhaldsskólum. Finnst okkur þetta bara í lagi? Eigum við að hlusta á það og láta segja okkur að það séu nægir peningar í framhaldsskólunum? Haldið þið að þetta tengist kannski því að það er búið að svíkja loforðið sem var gefið fyrir ári um að peningarnir sem áttu að skila sér til framhaldsskólanna þrátt fyrir styttinguna myndu halda sér inni í framhaldsskólunum? Þetta er auðvitað umhugsunarefni.

Mér finnst skrýtið, mér finnst sérstakt að hv. þingmenn stjórnarliða vilji ekki einu sinni eiga þennan orðastað um framhaldsskólana og háskólana, vísindin, rannsóknir, nýsköpun, ekki heldur ferðaþjónustuna. Allt lykilatriði. Svo les maður um það í blöðum að þeir séu nú ekkert alveg sammála.

Við erum búin að ræða svolítið um skilninginn á hlutverki Alþingis. Ég hef þann skilning á hlutverki Alþingis að ég vil vita hvort fólk er sátt við þá stefnu sem er verið að leggja í menntamálum þjóðarinnar. Ég vil vita hvort fólk telji í alvöru, þeir þingmenn sem standa að framlagningu fjárlagafrumvarpsins, sem styðja ríkisstjórnina sem leggur hana fram, að þetta sé hin rétta leið til að mynda þegar kemur að uppbyggingu þjóðarinnar. Svo er manni sagt að það verði nú að fara varlega í uppbyggingu. Hvenær á þá að fara að byggja upp skólakerfið, þetta sama skólakerfi sem opnaði sínar dyr þegar allt hrundi hérna? Þegar skattkerfið var vanbúið til að takast á við áföllin, þegar hagstjórnin var vanbúin til að takast á við áföllin? Skólakerfið var tilbúið en það á greinilega ekki að hafa það tilbúið aftur.