147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:22]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Fátt kemur á óvart í fjárlagafrumvarpinu sem nú er til umfjöllunar þegar horft er til þess hvernig fjármálaáætlun var afgreidd á Alþingi í vor enda er gert ráð fyrir að fjármálaáætlun sé rammi um ríkisfjármál. Hugmyndin er að auka aga í ríkisfjármálum, auka fyrirsjáanleika með það fyrir augum að halda stöðugleika í efnahagslífinu. Stöðugleiki er nefnilega algert lykilatriði þegar kemur að ríkisfjármálum því að hann þjónar samfélaginu öllu.

Sú sem hér stendur hefur skilning á því að við þurfum að sýna þolinmæði hvað varðar uppbyggingu innviða. Við þurfum að gæta þess að hagkerfið ofhitni ekki, en það að gæta þess að þenja hagkerfið ekki of mikið þýðir ekki að við getum eða megum alls ekki fara í framkvæmdir neins staðar. Það er hins vegar algert lykilatriði um opinberar framkvæmdir að velja réttu landshlutana til framkvæmda.

Skýrsla Byggðastofnunar, sem gefin var út í sumar, greinir hagvöxt eftir landshlutum. Í þeirri skýrslu kemur fram að hagvöxturinn er mjög mismunandi á milli svæða. Á Vestfjörðum er hann til dæmis neikvæður um 6% á tímabilinu frá 2008–2015.

Það sem kemur á óvart í framlögðu fjárlagafrumvarpi er að hæstv. fjármálaráðherra virðist ekki hafa farið eftir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar við afgreiðslu fjármálaáætlunar í vor þar sem hann heldur sig enn sem fyrr við hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu upp í hærra skattþrep þrátt fyrir að vitað sé að slík hækkun muni að öllum líkindum skerða afkomu íbúa sem búa utan suðvesturhornsins og Suðurlands. Minni ferðaþjónustufyrirtæki munu einnig taka þungt högg við þessar breytingar. Það gerist á sama tíma og krónan hefur styrkst um tugi prósenta og ferðamannafjöldi dregist saman, sérstaklega á ákveðnum svæðum, veikari svæðum. Fjármálaráðherra hafnar hins vegar komugjaldi.

Í áliti meiri hluta fjárlaganefndar með fjármálaáætlun segir svo, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur til að kostir og gallar þess að leggja komugjöld á farþega til landsins verði greindir ítarlega. Fjárhæð komugjalds getur verið mismunandi eftir mánuðum, hæst þegar ferðamenn eru flestir en lægri á öðrum árstímum. Athugað verði sérstaklega hvort hægt sé að styðja við millilandaflug til annarra flugvalla en Keflavíkurflugvallar með mismunandi komugjöldum og stuðla þannig að meiri dreifingu ferðamanna um landið og skjóta þar með styrkari stoðum undir ferðaþjónustu á svokölluðum „köldum svæðum“.“

Hæstv. forseti. Ég veit ekki til þess að þessi ítarlega greining hafi farið fram. En hæstv. fjármálaráðherra, sem er því miður ekki í salnum núna, getur kannski frætt mig um það á eftir ef hann fær þessi skilaboð.

Skattar, skattar og meiri skattar. Það mætti halda að skattahækkanir hefðu verið helsta kosningamál stjórnarflokkanna miðað við áherslur fjárlagafrumvarpsins. Það er merkilegt í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn leiðir ríkisstjórnina. Sá flokkur hefur nú ekki verið þekktur fyrir að vilja hækka skatta. Þvert á móti. Hvað gerðist eiginlega? Sætta þingmenn Sjálfstæðisflokksins sig við þessa nýju nálgun í skattamálum?

Hækkun skatta á eldsneyti er annað mál sem vert er að ræða. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu stendur til að hækka bæði skatta á bensín og dísilolíu. Um svokallaðan grænan skatt er að ræða. Þetta vilja menn gera án þess að búið sé að greina áhrif þessara hækkana nægjanlega, og þá sérstaklega þau áhrif sem hækkunin mun hafa á hin margumtalaða stöðugleika. Hvað með þá kjararýrnun sem hækkun eldsneytis mun hafa í för með sér til dæmis fyrir örorku- og ellilífeyrisþega sem fá nú þessa 20 þúsund kr. hækkun? Hvað með vísitöluna, hækkun húsnæðislána, sem bitnar á mjög mörgum? Nei, það er ekkert skoðað.

Í viðtali við Morgunblaðið í gær bendir Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB, með leyfi forseta, að:

„… að viðbættum virðisaukaskatti nemi hækkunin á dísilolíu 21 krónu á lítra en lítrinn af bensíni mun hækka um níu krónur. „Ef við tökum bara venjulega notkun þá getur [sic] þetta verið aukin útgjöld um 30 til 60 þúsund krónur fyrir hverja fjölskyldu, sem á einn bíl. Vegna slíkra útgjalda þarf að vinna sér inn um það bil 50 til 90 þúsund krónur í tekjur til að eiga fyrir hækkuninni“.“

Það segir sig sjálft að slík hækkun mun fljótt éta upp 20 þús. kr. hækkun til lífeyrisþega sem og að auka þrýsting í komandi kjaraviðræðum.

Sú staðreynd ógnar svo sannarlega stöðugleikanum.

Annað atriði sem virðist ekki tekið með í reikninginn er að landsmenn sitja ekki allir við sama borð þegar kemur að því að nýta fararskjóta sem ganga fyrir öðrum orkugjöfum en bensíni eða dísilolíu. Mörg atvinnutæki ganga fyrir dísilolíu. Sú staðreynd mun ekki breytast í bráð. Hvers eiga þeir að gjalda sem þurfa yfir fjallvegi að fara vegna vinnu sinnar og/eða til að sækja grunnþjónustu, opinbera þjónustu? Hleðslustöðvar eru ekki á hverju götuhorni á landsbyggðinni.

Ríkisstjórnin boðar endalausar skattahækkanir meðan afgangur í ríkissjóði er miklu meiri en gert var ráð fyrir samkvæmt fjármálaáætlun. Afgangurinn er hvorki meira né minna en 44 milljarðar, 19 milljörðum meira en gert var ráð fyrir, þar sem tekjurnar voru verulega vanáætlaðar. Við Framsóknarmenn greiddum ekki atkvæði með fjármálaáætlun í vor og það var af góðum og gildum ástæðum. Við vildum fara aðra leið, betri leið. Okkar leið felst í því að leggja áfram áherslu á niðurgreiðslur skulda til að ná niður vaxtagjöldum en skila samt sem áður minni afgangi. Það fjármagn vildum við nýta til uppbyggingar innviða, svo sem samgöngukerfis, heilbrigðis- og menntakerfis. Sú útgjaldaaukning sem birtist nú í fjárlagafrumvarpi til þessara þátta skýrist fyrst og fremst af launahækkunum og fjárfestingum í fasteignum, þ.e. meðferðarkjarna Landspítalans og Húsi íslenska fræða. Sem sagt steypu.

Hæstv. forseti. Ræðutími minn styttist nú óðum í annan endann en mig langar áður en ég lýk máli mínu að ræða málefni heilsugæslunnar og hvernig stefna ríkisstjórnarinnar gagnvart henni birtist í fjárlagafrumvarpinu. Í viðtali við Ríkisútvarpið í dag segir Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, að fjárlagafrumvarpið sé mikil vonbrigði og að stjórnvöld standi þannig ekki við yfirlýsingu um að efla heilsugæsluna. Samkvæmt frumvarpinu eiga framlög til heilsugæslu í landinu að hækka um 200 milljónir. Með leyfi forseta langar mig að vitna beint í viðtalið. Þar segir:

„Framlög til heilsugæslunnar eru óbreytt frá yfirstandandi ári ef frá er talið að það eiga að koma 40 milljónir til uppbyggingar sálfræði- og geðþjónustu innan heilsugæslunnar sem sannarlega er vel að okkar mati. En hins vegar verður að benda á að breytingin sem hefur orðið í heilsugæslunni er sú að það eru komnar tvær nýjar heilsugæslustöðvar. Þær eru ekki fullfjármagnaðar,“ segir Svanhvít.“

Hún bendir jafnframt á að það líti því út fyrir að taka verði fjármagn úr rekstri heilsugæslunnar til að fjármagna nýju stöðvarnar. Þá hafi bæst við verkefni hjá heilsugæslunni með tilvísunarþjónustu vegna barna sem þurfa á sérfræðilækni að halda og kröfum um fljótari þjónustu.

Við Framsóknarmenn erum sammála því að mikilvægt sé að halda áfram að greiða niður skuldir ríkissjóðs og ná þar með niður vaxtakostnaði. En á sama tíma þarf að auka við uppbyggingu innviða, svo sem í menntakerfi, samgöngum og velferðarkerfi. Ef innviðirnir fá að grotna niður áfram mun það skaða samkeppnisstöðu Íslands til lengri tíma.

Að þessu sögðu er það niðurstaða mín að fjárlagafrumvarpið eins og það lítur út núna sé meingallað. Ég bind hins vegar vonir við að hv. fjárlaganefnd — og mér heyrist það á öllu, miðað við yfirlýsingar í fjölmiðlum — að það sé þverpólitískur vilji fyrir að gera úrbætur á frumvarpinu. Að þessi hópur þingmanna nái að gera nauðsynlega bragarbót á frumvarpinu með það fyrir augum að halda hér uppi skynsamlegri hagstjórn með stöðugleikann að leiðarljósi.