147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður beindi til mín spurningu um greinargerð um komugjöld. Sú greinargerð hefur verið tekin saman í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Það kom hins vegar í ljós að á henni voru smáannmarkar en henni mun verða lokið á allra næstu dögum og mun þá verða send til hv. fjárlaganefndar.

Ég vil aðeins ræða við þingmanninn um að ég er sammála því að við þurfum að skoða betur hin mismunandi áhrif hagsveiflunnar í landshlutum. Ég held að mjög mikilvægt sé að þar fáum við betri upplýsingar en við höfum haft og söfnum upplýsingum af því tagi. Aftur á móti er ég ekki sammála því að þegar við erum t.d. með útboð, þá sjáum við að víða er þensla og það kemur þá aðallega fram í því að útboðsfjárhæðir eru oft yfir kostnaðaráætlun, sem byggja á væntanlega reynslu Vegagerðarinnar.

Það á ekki alveg eins vel við að tala um spennu. Ég get alveg fallist á þau rök að nú er hagkerfið sveigjanlegra en áður því að við erum hluti af Evrópska efnahagssvæðinu. Það er auðveldara að flytja inn vinnuafl en áður var. Það eru kannski frekar tækin sem binda okkur, en ég er sammála þingmanninum um að þetta þarf að skoða miklu betur þannig að við getum stýrt þessu betur í framtíðinni.