147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Verðlagsáhrifin af þessu eru metin svona rétt rúmlega 0,1% eða 0,11%. Ég bað um að farið yrði yfir þessa útreikninga aftur í tilefni af umræðum hér, en þetta er það sem ég kemst næst því á þessari stundu.

Ég vil taka undir með hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra sem lýsti því yfir að hann væri ekki sérstaklega hlynntur skattahækkunum almennt. Ég er það ekki heldur. Ég er aftur á móti alveg til í að ræða breytingar á skattkerfinu, ég er alveg viss um að það er ekki besta skattkerfið í heimi sem við höfum núna. Ég held að við eigum að nýta tækifærið núna í haust til þess að ræða hvaða breytingar á skattkerfinu gætu komið til greina. Viljum við lækka skatta á einu sviði og færa þá yfir á annað svið? Ég lít ekki á þetta fjárlagafrumvarp sem einhverja helga bók sem ekki megi breyta. Það er einmitt hlutverk þingsins að fara yfir fjárlagafrumvarpið og gera þær breytingar sem meiri hluti (Forseti hringir.) þingsins telur skynsamlegar.