147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:49]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Það er búið að vera athyglisvert að fylgjast með þessari umræðu, ekki bara í dag heldur líka að setja hana í samhengi við umræðurnar hér í gærkvöldi. Raunar finnst mér hafa verið nokkuð athyglisvert að fylgjast með umræðunum í þingsal þegar kemur að öllum hliðum þessa nýja kerfis sem lýtur að fjárlögum, fjármálaáætlun og fjármálastefnu. Satt að segja er ég dálítið hissa á þessu öllu saman, það er kannski ekkert nýtt, ég er oft hissa á mörgum hlutum og er að læra margt, en það hefur einhvern veginn verið þannig að það er eins og við höfum ýtt á undan okkur á öllum stigum þessarar alvörupólitísku umræðu um hvert við viljum stefna með þetta samfélag. Í vor átti það allt að koma í ljós í fjármálastefnu og fjármálaáætlun í haust og við að ræða um þetta þegar fjárlagafrumvarpið kæmi fram. Nú er það komið fram og við erum ekki alveg að fatta þetta, þetta er bara einhver umræða, svona lítur þetta út — og eigum við ekki að taka þetta bara næst? Það er eins og við séum að velta á undan okkur bolta sem við erum aldrei tilbúin að taka upp.

Ég er dálítið hissa á þessu, en það sem ég er mest hissa á eru fjárlögin sjálf. — Já, hv. þingmaður, samræðustjórnmál geta verið ágæt af því að samræða skilar oft betri niðurstöðu. Hv. þingmenn stjórnarliðsins stunda margir það að eiga í samræðum við aðra stjórnarliða í gegnum fjölmiðla. Ég las í Morgunblaðinu í morgun einmitt vitnað í hv. þm. Óla Björn Kárason, með leyfi forseta:

„Þær fyrirætlanir sem koma fram í fjárlagafrumvarpinu varðandi tekjuöflun ríkissjóðs og breytingar á sköttum og gjöldum hér til hækkunar eru með þeim hætti að þær hljóta að taka breytingum í meðförum þingsins.“

Þetta eru samræðustjórnmál, eiga sér reyndar stað á síðum Morgunblaðsins en ekki hér í þessum sal, í það minnsta ekki enn þá. Kannski hefði hv. þm. Óli Björn Kárason átt að fara í andsvör við hæstv. fjármálaráðherra hér áðan eða kollega sinn, hv. formann fjárlaganefndar, koma þessum athugasemdum sínum skilmerkilega á framfæri. Það hefði kannski fært okkur eitthvað aðeins áfram í þessari umræðu. Það verður að segjast eins og er að umræðan einkennist af frekar innihaldslausu tali, sérstaklega ef við setjum hana í samhengi við umræðuna í gær.

Það er ekki langt síðan hér voru kosningar. Mér verður tíðrætt um þetta — og þingmenn verða bara að þola það því að mér mun verða tíðrætt um þetta allt kjörtímabilið — þar sem allir stjórnmálaflokkar stóðu fyrir framan kjósendur og reyndu að vinna hylli kjósenda: Kjósið mig! Kjósið mig, ég ætla að byggja upp innviði. Ég ætla að setja peninga í menntakerfið, ég ætla að setja peninga í heilbrigðiskerfið, ég ætla að bæta hag þeirra sem verst standa. Kjósið mig!

Síðan erum við hér með fjárlagafrumvarpið, fyrst fjármálastefnu, svo fjármálaáætlun og svo fjárlagafrumvarp þar sem ekkert af þessu raungerist, en enn tölum við eins og þetta sé allt að gerast. Hæstv. fjármálaráðherra talaði í gær ásamt fleiri stjórnarliðum og svo aftur í dag eins og þetta væri allt að gerast. Það er alveg sama hversu oft er bent á að sú sé ekki raunin, það skiptir bara engu máli. Þetta er bara víst að gerast að mati hæstv. fjármálaráðherra og fleiri stjórnarliða.

Ég er búinn að heyra hér einhverja stjórnarliða tala um að það sé aldeilis verið að taka vel á í málefnum öryrkja. Það er bara víst að gerast þrátt fyrir að öryrkjar sjálfir segi að svo sé ekki. Hæstv. fjármálaráðherra benti í Kastljóssviðtali þjóðinni og þar með talið öryrkjum á að 20.000 kr. séu gríðarlega mikill peningur í vasa þeirra sem lægstar upphæðirnar hafa milli handanna. Veit hæstv. fjármálaráðherra ekki enn þá sem stjórnmálamaður að orð hafa ábyrgð? Hvaða hugrenningatengsl vöktu þessi orð hans í Kastljósinu? Ég ætla að leyfa mér að vitna í formann Öryrkjabandalags Íslands sem birtir í dag á vef Öryrkjabandalagsins eftirfarandi orð um þessi orð hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Með þessum skilaboðum hefur fjármálaráðherra fært í orð það lúalega viðhorf sem of víða ríkir gagnvart tekjulágum hópum að þeir eigi að fagna hverri þeirri upphæð sem að þeim sé rétt. Upplifunin fyrir fjölmarga er að boðið er upp á mylsnu sem fellur af borði hinna ríku; hér hafið þið ölmusu sem dugar ykkur vel.“

Þetta er ekki eitthvert fólk úti í bæ að tala. Þetta er málsvari öryrkja, formaður Öryrkjabandalagsins.

Ég veit ekki hversu lengi hæstv. ráðherrar eða hv. stjórnarliðar ætla bara að setja undir sig hausinn, æða áfram og segja: Jú, víst, þetta er víst svona, við erum bara að setja fullt af peningum í þetta og hitt. Jú, víst.

Það er bara ekki þannig. Ég get ekki hætt að undrast það hvernig sumir hv. stjórnarliðar tala.

Ég er ekki barnanna bestur þegar kemur að flóknum kenningum um fjármál og hagstjórn. Ég er að reyna að læra. Ég hlustaði á hæstv. velferðarráðherra tala áðan um að það ætti ekki að fara í skattahækkanir núna, hann væri ekkert sérstaklega hlynntur því, það gæti þó vel verið að það ætti að skoða það ef öðruvísi áraði. Er þetta í alvöru hagstjórnin sem við viljum stunda, að ef verr fer að ára þurfum við að fara að skoða skattahækkanir, að ef það kemur til viðbótar erfiðu efnahagsástandi getum við farið að skoða þær þrátt fyrir að í sjálfu frumvarpi til fjárlaga sé sérstaklega komið inn á að tekjugrunnur ríkisins hafi verið veiktur og varað við því? Ég skil þetta einfaldlega ekki.

Hæstv. forsætisráðherra talaði hér í gær og hélt ræðu um sýn sína á samfélagið, innblásna ræðu um það hvert hann vill stefna með þessa þjóð. Hæstv. forsætisráðherra talaði þar um að vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar hefði fólk fleiri krónur á milli handanna um hver mánaðamót. Það getur vel verið að það sé rétt hjá hæstv. ráðherra. Það er bara fínasta mál. Ég hef hins vegar áhyggjur af þeim sem hafa engar krónur á milli handanna þegar fer að líða á mánuðinn, alveg sama hvort þeim fjölgaði eitthvað lítillega um síðustu mánaðamót eða ekki. Þessi ríkisstjórn hefur ekki áhyggjur af þeim hópum. Það er ekki að sjá að áherslan sé þar.

Ég hlustaði á hæstv. fjármálaráðherra fara yfir sýn sína á samfélagið í gær og verð að játa að mér fannst dálítið gaman að fara með honum í það ferðalag sem hann fór með okkur í. Helst óttaðist ég að hann væri að boða að hann yrði enn fjármálaráðherra árið 2050 sem hann var mikið að tala um, en þar sagði hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Okkur hættir til að reikna með því að núverandi ástand vari um alla framtíð þó að reynslan kenni okkur að það er einmitt ekki svo.“

Ég er sammála hæstv. ráðherra um þetta. Einmitt þess vegna skil ég ekki hvernig hæstv. fjármálaráðherra leggur fram fjármálaáætlun, fjármálastefnu og fjárlagafrumvarp sem byggja á því að ástandið verði óbreytt áfram, sem byggja á því að lengsta hagvaxtarskeið sögunnar haldi áfram. Til að geirnegla að ekki sé hægt að hnika neinu sérstaklega til setur hann sérstakt þak á ríkisútgjöldin þannig að ef illa árar — sem kollegi hans í ríkisstjórn, hæstv. forsætisráðherra, er reyndar búinn að spá að muni gerast — er hæstv. fjármálaráðherra búinn að binda hendur sínar og ríkisstjórnarinnar til þess að bregðast við með því að setja þak á ríkisútgjöld sem hlutföll af vergri landsframleiðslu. Fyrirgefið — hvers lags eiginlega er þetta?

Tíminn líður hratt á gervihnattaöld. Ég sé að ég á 30 sekúndur eftir af tíma mínum. Ég verð að koma síðar inn á fleiri hluti sem ég vildi koma inn á. En stóru línurnar í þessu frumvarpi eru þær að hlutdeild samneyslunnar hefur lækkað hratt og örugglega á síðustu árum. Frá árinu 2013 hefur hún lækkað um 4 prósentustig. Það var komið inn á þetta í umræðum í gær. Þetta eru 100 milljarðar. Hvað þýðir þetta á mannamáli og á hvaða vegferð heldur ríkisstjórnin áfram? Það er markvisst verið að draga úr opinberri þjónustu. (Forseti hringir.) Og það á að gera áfram.