147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði að gott væri að eyða opinberu fé með skynsamlegum hætti. Því langar mig aðeins að halda áfram með þær vangaveltur sem ég hóf með hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur. Þingmaður svaraði því hálft í hvoru í ræðu sinni en ég vildi bara skerpa á því svo við séum alveg á sömu blaðsíðu og skiljum hvor annan. Er það afstaða þingmanns að hið opinbera eigi að reka heilbrigðisþjónustu sem er opin og aðgengileg öllum og býður upp á bestu mögulegu þjónustu? Og svo samhliða því: Að heilbrigðisstarfsfólk geti sinnt sínu fagi án þess að vera ríkisstarfsmenn og þiggja greiðslu fyrir þjónustu sína í gegnum Sjúkratryggingar Íslands, með „single-payer system“ eða einum greiðanda, þ.e. opinbert heilbrigðiskerfi sem býður upp á þjónustu fyrir alla og bestu mögulegu þjónustu sem við getum útvegað, og samhliða því séu læknar og heilbrigðisstarfsfólk sem geti sinnt sínu fagi á sinni skrifstofu eða hvar sem það er gegn greiðslu? Það er þetta svokallaða einkafyrirbæri eins og það er. Miðað við ræðu hv. þingmanns áðan virtist svo vera, það er skilningur minn, að kerfið virkaði svoleiðis. En þá vildi ég bæta við: Er þingmaður sammála því að einstefna sérfræðinga út úr heilbrigðiskerfinu sé vandamál eins og Landspítalinn hefur útskýrt? Og hvernig útskýrir þá þingmaður forgangsröðun fjármögnunar og fjárútláta í núgildandi fjárlögum þar sem verið er að styrkja einfaldlega einkahluta kerfisins mun meira en opinbera hlutann? Við höfum margoft fengið gögn um að það vanti á sérfræðiþjónustu þar.