147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:09]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Honum líður frekar illa alla jafna þegar hann talar um skatta, heyrist mér gjarnan. Hann talar um þá sem útgjöld og byrðar á okkur landsmenn. Ég held nefnilega að flestum sé ósárt um að greiða skatta. Hins vegar hefur komið fram í samfélaginu að fólk vill að þeir fari í að við getum rekið hér opinbera heilbrigðisþjónustu og gott skólakerfi og svo framvegis.

Hæstv. félags- og jafnréttisráðherra talaði um vinstri velferðina. Ég náði því ekki alveg í þessum lestri hjá hv. þingmanni. Ég verð að taka undir með hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni sem talaði áðan um heilbrigðiskerfið. Ef arðgreiðslur eru 600 milljónir hjá tveimur fyrirtækjum frá hruni hljótum við að hugsa með okkur: Borgum við þá ekki bara of mikið? Ef hægt er að reka slík fyrirtæki sem eru að mestu fjármögnuð af ríkistekjum með slíkum hagnaði getum við ekki talað um að þetta sé svo frábær rekstur og að hinn opinberi sé ómögulegur. Það er eitthvað vitlaust gefið í þessu, það er alveg á hreinu. Það er alla vega mín skoðun.

Svo verð ég að segja líka að komið hefur fram að heilsugæslan er ekki fullfjármögnuð í þessum fjárlögum. Ég verð að spyrja hv. þingmann hvað honum þyki um það.

Við þekkjum þetta með hagsveifluna. Ef við horfum fram hjá henni er ríkisreksturinn í járnum vegna þess að við höfum slakað á á tekjuhliðinni. Ég verð líka að spyrja: Hvernig ætlar hann að horfast í augu við það þegar skattstofnunum hefur fækkað svona? Er hann sáttur við það og vill hann að samneyslan dragist enn meira saman en orðið er, þótt hún hafi nú farið minnkandi?