147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:11]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég átti nú svo sem ekki von á að við yrðum sammála í einu og öllu. Það er alveg augljóst að viðhorf mín til skattheimtu eru allt önnur en hv. þingmanns sem lagði til hér gríðarlega miklar skattahækkanir við afgreiðslu fjárlaga ásamt samherjum sínum í þingflokki Vinstri grænna, ef minnið svíkur mig ekki. Og munaði milljónum, held ég, á hverja fjölskyldu. En látum það nú liggja á milli hluta.

Það er sérstakt viðhorf að tala um að við séum að fækka skattstofnum. Við veikjum skattstofna ef við léttum eitthvað byrðum af heimilum og svo framvegis. Það er bara staðreynd og menn geta litið yfir hagsöguna og séð að stundum styrkjast skattstofnar einmitt þegar menn taka minna af þeim. Það á líka við um þorskinn oft og tíðum. Það er það sama. Það er nefnilega þannig að ef maður gengur of nærri almenningi, of nærri fyrirtækjum, þá veikir maður skattstofnana. Maður styrkir þá ekki. Höfð eru endaskipti á hlutunum hér. Ef maður fer fram af hófsemd í álögum á fyrirtæki og einstaklinga eflir maður þróttinn og ýtir undir athafnasemi einstaklinga og fyrirtækja úti um allt land. Á endanum fær ríkissjóður hærri tekjur, meira í kassann, til þess akkúrat að sinna þeim nauðsynlegu verkum sem við erum sammála, ég og hv. þingmaður, að þurfi að sinna.