147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:23]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að byrja á því að þakka öllum hv. þingmönnum og hæstv. ráðherra fyrir þessa góðu umræðu sem við erum búin að eiga hér í dag. Það er fyrst ein tæknileg ábending sem mig langar til að koma til skila til fjármálaráðuneytisins varðandi uppsetninguna á frumvarpi til fjárlaga. Það er að ekkert efnisyfirlit er með greinargerðinni sem er 250 blaðsíður. Þetta er nú búið að lagast frá því að ég tók sæti á þingi. Þá var ekkert efnisyfirlit yfir höfuð, en það virðist sem að leiðbeiningar mínar úr ræðustól um hvernig ætti að búa til efnisyfirlit í vor hafi skilað sér að einhverju leyti. Hins vegar væri til bóta fyrir þingmenn og aðra sem vilja glöggva sig á þessu riti að hafa gott efnisyfirlit yfir greinargerðina til þess að hafa betri yfirsýn. Ég hugsa að fjármálaráðuneytið geti kippt því mjög auðveldlega í lag fyrir næsta fjárlagafrumvarp.

Mig langar til þess að byrja á því að tala eilítið um íþrótta- og æskulýðsmál því það er eitthvað sem við höfum ekki snert á í dag enn sem komið er eftir því sem ég best veit. Í fylgiriti með fjárlagafrumvarpinu kemur fram að samningar og styrkir til æskulýðsmála í frumvarpi fyrir 2018 eru 236,9 milljónir. Það sem stingur svolítið í stúf er að það er engin sundurliðun. Hins vegar er í fjármálaáætluninni einungis gert ráð fyrir því að það verði Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, KFUM og KFUK sem muni fá þessa styrki. Það var minn skilningur þegar við vorum að samþykkja lög um opinber fjármál að svona beinir fjárlagaliðir, að vera beint á spenanum eins og það er stundum kallað, myndu heyra sögunni til. Það er hreinlega ekki nógu skýrt í greinargerðinni með fjárlagafrumvarpinu hvernig útfærslan á þessu verður. Munu samningar og styrkir til æskulýðsmála í raun og veru bara renna til þessara þriggja félagasamtaka?

Það segir réttilega í greinargerðinni að þetta er mest megnis starf sem er unnið að eigin frumkvæði og sömuleiðis segir að hlutverk ríkisins á þessu sviði lúti einkum að því, með leyfi forseta, „að stuðla að því að eftir föngum slíkt frumkvæði fái notið sín.“

Það hefur ekki verið raunin þegar við skoðuð hvernig æskulýðsstarf hefur verið á Íslandi og hvernig fjárframlögum til æskulýðsstarfa hefur verið háttað. Það hafa að mestu leyti verið til þessi þrjú æskulýðsfélög og það er hreinlega þannig að öldin er önnur, það er komin 21. öldin. Það er kominn vilji til þess að stofna ný og frábær félög, algjörlega að skátunum, KFUM og KFUK og UMFÍ ólöstuðum. Það vantar tæknilegar útskýringar á þessu í greinargerðinni og það er frekar sorglegt að sjá að ekki sé verið hvetja til nýsköpunar á sviði íþrótta- og æskulýðsmála. Þetta er gífurlega mikilvægur málaflokkur til þess að virkja lýðræðisvitund og sömuleiðis til þess að stuðla t.d. að minnkandi unglingadrykkju og þar fram eftir götunum. Þetta er gífurlega mikilvægur málaflokkur sem við verðum að taka mjög alvarlega.

Annað sem mig langar til þess að taka fyrir er það sem hæstv. ráðherra er búinn að ræða svolítið, þessar 20 þús. kr. sem verða síðan að 6 þús. kr. eftir skatt. Þau lög sem við leiddum í lög á haustmánuðum 2016 gerðu krónu á móti krónu skerðinguna fyrir örorkubótaþega enn skarpari en hafði áður verið. Það hefur orðið til þess að fjölmargir sem voru áður vinnufærir hafa farið af vinnumarkaðnum. Ef það er eitthvað, einhverjir 20 þúsund kallar sem þarf til að bæta eitthvað upp, ætti það að fara í að hækka frítekjumarkið, mörkin þangað til króna á móti krónu fer að skerðast. Með því að hafa þetta svona skarpt eins og það er núna er verið að sjá til þess að hver sá sem er á þessum bótum geti aldrei komist yfir ákveðna lágmarksgrunnframfærslu. Við erum að búa til fátækt með þessu fyrirkomulagi. Það er dýrt. Það er dýrt fyrir okkur að búa til fátækt. Það er dýrt fyrir heilbrigðiskerfið að virkja ekki fólk til framkvæmda, að við notum ekki þann mannauð sem við höfum. Margir öryrkjar og jafnvel eldri borgarar hafa starfsgetu sem væri þess virði að nýta og líka upp á félagslegar tengingar, andlegar og líkamlegar. Þetta var gífurlega slæm afturför. Þannig að ef það eru einhverjir 20 þúsund kallar sem þyrfti að nota til hækka eitthvað þá er það þetta.

Mig langar til þess að koma einnig að hækkun á áfengisgjaldi og bensíngjaldinu. Ég hef ekki mikla trú á þeirri hækkun. Þetta er kannski ekki alveg vinsælasta skoðun í heimi, en mér finnst það svolítið einkennilegt fyrir flokk sem, eins og sagði í stefnuræðu forsætisráðherra, á að vera hægri frjálslyndur flokkur, að sá hinn sami boði skattahækkanir á neysluvörum sem hafa jafnvel verið skilgreindar sem almennar neysluvörur, sama hvort fólki líkar það betur eða verr. Þetta er náttúrlega bara íhlutun í frelsi fólks og þetta fer ábyggilega beint út í verðlagið. Þetta kemur á mjög slæmum tíma. Það eru mjög erfiðir kjarasamningar fram undan. Ég held að við séum svolítið að búa til, með leyfi forseta, „feedback loop“ með því að vera endalaust að hækka þetta. Ég hugsa að það sé komið nóg. Áfengisgjald var hækkað alveg gífurlega eftir hrunið. Það er einfaldlega ekki ástæða fyrir endalausum hækkunum þar. Það var hækkað þá langt umfram eðlilegar verðlagshækkanir. Núna er kannski kominn tími til þess að taka eitt skref til baka og leyfa fólki að hafa það bara allt í lagi svona einu sinni. Mér finnst við vera svolítið vera að reyna að búa til einhverja spennitreyju fyrir hinn venjulega þenkjandi mann.

Svona rétt í lokin, ég mun koma náttúrlega meira að því á morgun þegar ég ræði við hæstv. utanríkisráðherra, um utanríkisþjónustuna. Mig langar til þess að brýna fyrir hæstv. fjármálaráðherra, fyrst ég hef hann hér, að utanríkisþjónusta Íslands þarf að vera jafn stór og heimurinn er, ekki jafn stór og Ísland er eða jafn lítið og Ísland er. Hér segir á bls. 200 í fjárlagafrumvarpinu að það beri að „tryggja hagsmuni Íslands í samningaviðræðum sem leiða af brotthvarfi Bretlands úr ESB“.

Þau svör sem ég fékk frá utanríkisráðuneytinu voru að það væru ekki til peningar til þess að búa til það stöðugildi sem þyrfti til þess að fylgja eftir málefnum Brexit í London. Það þurfti að hætta við að stofna sendiskrifstofu í Strassborg sem rímar ekkert sérstaklega við að tryggja virkari þátttöku Íslands í mótun EES-löggjafar til þess að sjá til þess að það stöðugildi sem væri í Brussel myndi ekki bara flytjast til London. Við erum að tala um ábyggilega stærstu pólitísku breytingar sem hafa orðið í Evrópu til lengri tíma þegar Bretland ákveður að ganga út úr Evrópusambandinu. Við þurfum því að sjá meira til utanríkisþjónustunnar. Framlög til hennar voru skorin við nögl við hrun. Hún hefur ekki fengið þá uppreisn sem hún á skilið, sér í lagi þar sem við horfum upp á breyttan heim. Við horfum upp á ógnir sem við þurfum að taka alvarlega. Við þurfum að virkja okkur betur í Evrópusambandinu til þess að gæta hagsmuna Íslands þegar verið er að setja inn EES-reglugerðir og lög. Ég sé ekki mikla breytingu hér á því, því miður. Við þurfum miklu meira. Og utanríkisþjónustan þarf miklu meira.

Ég mun koma að aðeins meira heildrænni skoðun minni á frumvarpi til fjárlaga varðandi utanríkismál á morgun þegar ég mun eiga orðastað við hæstv. utanríkisráðherra.