147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:39]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að hafa gott efnisyfirlit, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, af því að það er aðgengismál. Það er spurning um að geta auðveldlega fundið út hvernig og hvað peningarnir okkar fara í. Fyrst hv. þingmaður benti á þetta, tók undir með mér, þá mætti sömuleiðis hafa atriðaorðaskrá. Það hefur ekki tíðkast hingað til að fjárlagafrumvarpið hafi sérstaka atriðaorðaskrá aftast eins og gengur og gerist í almennilegum fræðiritum og almennilegum ritum. Það mundi ábyggilega hjálpa mikið til við að greina frumvarpið og finna ákveðnar tengingar. Ég held að sé mjög auðvelt að bæta úr því. Ég verð að segja að fjármálaráðuneytið hefur verið mjög til í að taka á móti svona ábendingum. Ég benti á þetta fyrst fyrir þremur árum síðan og það hefur alla vega orðið einhver bót á.

Varðandi stóru línurnar er þetta frumvarp til fjárlaga í raun einungis útfærslan á því sem fjármálastefnan og fjármálaáætlunin byggir á. Við sjáum meiri aðhaldskröfu í fjármálastefnunni og fjármálaáætluninni en verið hefur. Aðhaldskrafan er ekki til þess fallin að auka nýsköpun eða til að koma okkur almennilega aftur á þá braut sem við vorum á. Hinn mikli fókus á niðurgreiðslu skulda sem veganesti inn í framtíðina, að við séum að byrgja okkur upp fyrir framtíðina — ég er ekki alveg sammála þeirri áherslu af því að við horfum t.d. upp á grotnandi vegakerfi. Það væri gott að fyrir framtíðina nýta þessa fjármuni til þess að bæta vegakerfið. Við notum ekki tækifærið til þess að gera það, og þetta er bara eitt dæmi af mörgum.