147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:49]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Ég tek undir það með henni að ég held að við þurfum að gæta okkar vel. Það eru mörg EES-mál á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar sem við eigum ekki að taka svona blindandi inn. Auðvitað væri heppilegra að við gætum haft áhrif og komið að málum fyrr með fleira fólki en verið hefur.

Ég átti þess kost að vera á Evrópuþinginu nú í sumar. Ég hefði til dæmis viljað sjá okkur styrkja stöðu okkar þar. Við heimsóttum Mannréttindadómstólinn. Róbert Spanó tók á móti okkur þar. Ég get fullyrt að það er mikill fengur að hafa slíkan mann á þessum stað, en það vantar að Ísland sé í fararbroddi í Evrópuþinginu og á þessum stöðum með lobbíista sem tala fyrir mannréttindum eins og við erum að reyna að praktísera hér heima. Við eigum að geta verið í fararbroddi þar. Ég tek undir það. Ég held að ekki séu nógu miklir peningar settir í þetta þó að suma ói nú við kostnaði í utanríkisþjónustunni. Ég held að það sé eitthvað sem við þurfum að hugsa (Forseti hringir.) vel um eins og annað hvernig við verjum þessum fjármunum. Ég held að við ættum að reyna að vera í fararbroddi í mannréttindamálum.