147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:22]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. formaður fjárlaganefndar sagði fyrr í ræðu sinni að vandmeðfarinn væri sá árangur sem náðst hefði. Ég svaraði því að vandasamt væri að klúðra því efnahagsástandi eða þeirri öldu sem hefur ýtt okkur þangað sem við erum nú komin. Við vorum þó sammála um að auðvelt gæti verið að klúðra þeim árangri.

Mig langaði aðeins að fræðast um aðdragandann að nútímanum frá hruni því að vissulega hafa ýmsar aðstæður verið okkur mjög hliðhollar. Þá langar mig aðeins til að átta mig á þeim aðstæðum sem sköpuðust í kringum aflandseignirnar og kröfuhafana og því um líkt, hvernig sú áætlun gekk fyrir sig. Eftir því sem ég best veit voru þetta í rauninni áætlanir sem Seðlabankinn lagði fyrir. Það var svo stjórnvalda að ákveða hvaða útfærslu ætti að velja o.s.frv. Mig langar til þess að fara aðeins yfir þá sögu. Eftir hrun fórum við í mjög mikinn mínus og höfum verið að byggja okkur upp síðan þá. Allir sem komið hafa að þeirri vegferð og skilað okkur hingað eiga þar einhvern hlut að máli. Mig langaði aðeins að fá innsýn í það ferli frá upphafi. Við vitum að sjálfsögðu að að miklu leyti er það vegna þess makríllinn kom, svo hefur koma ferðamannanna líka skilað okkur hingað. Það hefði verið vandasamt að klúðra því, því að það gerðist í rauninni þrátt fyrir margt sem gert hafði verið þótt auglýsingaherferðin Inspired by Iceland hafi vakið vissan áhuga og hjálpað til.