147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:26]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spyr einfaldlega af því að maður heyrir sögurnar á marga vegu, frá mismunandi sjónarhornum. Þar talar oft hver röddin á móti annarri og eignar sér heiðurinn af þessum árangri. Frá mínum bæjardyrum séð er það þannig, þar sem við í Pírötum komum ekki að þessum málum alveg frá hruni, ekki fyrr en 2013, að teknar voru ákvarðanir sem heppnuðust og allir sem komu að þeim ákvörðunum og héldu áfram settri áætlun skiluðu okkur þangað sem við erum í dag. Vissulega hefði það getað farið öðruvísi. Það gerði það ekki sem betur fer. Það voru vissulega einhverjar ákvarðanir sem fóru í mínus á meðan aðrar fóru í plús. Það voru margar mismunandi ákvarðanir teknar þarna og heppnuðust alla vega á þann hátt fyrir ríkissjóð, í því tilliti. Til viðbótar við það bættist hvalreki, ef svo má segja, eins og ferðamenn og makríll.

Ég held að við eigum eftir ákveðið uppgjör við þessa fortíð þar sem það ríkir óvissa um hver segir rétt og satt frá um hvað gert var og hver gerði hvað, og sumt er ekki alls kostar satt. Það eru fleiri sem eiga heiðurinn af þessu.