147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:28]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er áhugaverð umræða. Ég þakka eiginlega hv. þingmanni fyrir að taka þetta upp vegna þess að mér finnst allt í lagi að fara aðeins yfir þetta af og til.

Hvað sjálfan mig varðar þá skiptir þetta ekki miklu máli, þ.e. þegar menn eru í þeim leik að eigna sér heiðurinn af hlutunum. Eins og ríkisstjórnin sem tók við 2013 gerði mikið af, hún lét eins og allt hefði verið ómögulegt og gagnslaust og verra en það, eiginlega til bölvunar sem gert var fram að því að hún tók við, en í kjölfarið sló hún hvert heimsmetið á fætur öðru í glæsilegum árangri. Auðvitað er svona málflutningur barnalegur. Hann er hlægilegur.

Ég sagði sjálfur einhvern tímann á þessum erfiðu árum — það er varla hægt að hafa það eftir — að einu verkalaunin sem ég vonaðist eftir væri bara að fá að lifa það að sjá að það hefði tekist að koma Íslandi út úr þessu ástandi. Ég bjóst aldrei við neinu öðru. Mér var það vel ljóst að það yrði að gera margt sem ekki væri vel til vinsælda fallið.

Í raun held ég að hið sanngjarna mat sé það að allir sem komið hafa að málum allt frá ríkisstjórn Geirs H. Haardes sem setti neyðarlögin og upp í gegnum þessa tímalínu og til dagsins í dag eigi ágæta hlutdeild í því að Ísland er komið þangað sem það er komið. Ég vil gefa öllum „kredit“ fyrir það sem þeir eiga í þessu. Svo mega aðrir reyna að tína út úr þessu rúsínur handa sjálfum sér og vera miklir menn, það er þeirra vandamál. Það verður hlægilegra og hlægilegra eftir því sem frá líður.

Grunnurinn var í öllu falli lagður með aðgerðunum 2009–2013, það getur enginn neitað því. Það hús var ekki byggt á sandi því að ofan á það hefur risið nokkuð traust staða, ekki satt? Ég ætla að leyfa mér að halda öðru fram, að langerfiðustu verkefnin pólitískt séð féllu öll til á því tímabili. Eða vill einhver skipta? Vill hæstv. núverandi fjármálaráðherra skipta ef við hefðum nú tímavél, að hann fengi að hoppa aftur til 1. febrúar 2009 og vera fjármálaráðherra í fjögur og hálft ár og ég færi síðan í hans stól í nútímanum? (Forseti hringir.) Hann mætti alveg velta því fyrir sér.