147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

dagskrártillaga.

[13:38]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við buðumst til þess að leggja fram tillögu Vinstri grænna. Það vildi fólk ekki. Það kom fram á þessum fundi. Við höfum afgreitt sambærilega tillögu og erum alveg opin fyrir því að breyta tillögunni nákvæmlega eins og sáttatillaga Vinstri grænna hljómar ef það væri vilji fyrir því. Við getum lagt fram nákvæmlega eins tillögu og var samþykkt hér 2013 fyrir utan að hafa 40% þröskuld sem að mati Feneyjanefndarinnar þykir ólýðræðislegur. Við erum opin fyrir öllum mögulegum leiðum til að tryggja að hér getum við skotið stjórnarskrárbreytingum til þjóðarinnar með annaðhvort meiri hluta þings eða auknum meiri hluta þings. Þetta snýst ekkert um það. Þetta er fyrirsláttur. Það sem þetta snýst um er að Sjálfstæðisflokkurinn fær hér fullnaðarsigur. Sjálfstæðismenn neita að hleypa málinu í atkvæðagreiðslu þannig að við getum séð hver hinn raunverulegi vilji Alþingis er. Þeir eru aftur á móti tilbúnir að hleypa í gegn bráðabirgðaákvæði til að börnin verði ekki send úr landi. Þeir eru samt á móti því máli, en voru tilbúnir að hleypa því á dagskrá. Þeir eru aftur á móti líka tilbúnir ef þetta mál fer hér til afgreiðslu að halda þinginu í gíslingu og hóta því að það mál verði ekki afgreitt ef þetta fer á dagskrá.

Þvílík (Forseti hringir.) stjórnsýsla. Þvílíkur hroki og hræsni og mannvonska. Ég á ekki til orð.