147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

dagskrártillaga.

[13:53]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir margt sem hefur komið fram í máli hv. þingmanna Pírata og líka hjá hv. þm. Loga Einarssyni í Samfylkingunni, en þau standa að þessari dagskrártillögu. Ég held að hugurinn sé góður. Tillagan er sett fram af góðum hug.

Staðan er sú að þingflokkar hafa rætt og komið sér saman um niðurstöðu. Við í Bjartri framtíð höfum ekki samvisku til að tefla í tvísýnu velferð fjölskyldna sem hér leita hælis. Það liggur fyrir. Það er það sem við erum að fást við í dag. Við vitum hvað gerist annars. Við vitum það, við sem vinnum í þessum sal. Þá fer umræðan út um allar þúfur og fer að snúast um eitthvað annað. Við þurfum að bregðast við málefnum barna á flótta. Það viljum við í Bjartri framtíð gera í dag. Við viljum bregðast við (Forseti hringir.) málinu um uppreist æru og því sem þar um ræðir. Þess vegna greiðum við þessari tillögu ekki atkvæði okkar.