147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[14:16]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi sem flutt er af formönnum allra flokka á Alþingi. Þetta er frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum, og varðar sérstaklega uppreist æru.

Frumvarpið var upphaflega samið í dómsmálaráðuneytinu en þar hefur síðan í vor verið unnið að heildarendurskoðun á því fyrirkomulagi sem felst í uppreist æru. Þessi áform um heildarendurskoðun á fyrirkomulaginu lúta að því að endurskoða og, eftir atvikum, afnema skilgreiningar í lögum á því hvaða brot eru svívirðileg að almenningsáliti og hafa í för með sér flekkun mannorðs, samanber ákvæði 4. og 5. gr. laga nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis, og afnema jafnframt með öllu ákvæði í almennum hegningarlögum um uppreist æru. Þess í stað yrði mælt fyrir um það í viðkomandi lagabálkum í hvaða tilvikum sakaferill skuli leiða til missis tiltekinna borgaralegra réttinda, svo sem kjörgengis, embættisgengis eða tiltekinna starfsréttinda. Megi þannig taka eðlilegt tillit til þeirra ólíku hagsmuna sem eru í húfi varðandi mismunandi störf og réttindi. Jafnframt verði alveg horfið frá þeirri framkvæmd að stjórnvöld taki ákvarðanir um uppreist æru.

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að vísa í þó nokkuð ítarlega greinargerð sem fylgir frumvarpinu, en ætla í ræðu minni einungis að stikla á stóru. Ég vil halda áfram að ræða um þá nauðsynlegu heildarendurskoðun sem ekki er ráðist í í þessu skrefi málsins. Hún stendur yfir í dómsmálaráðuneytinu. Flutningsmenn telja mikilvægt að tillögur um hana fái ítarlega lýðræðislega umfjöllun og síðan, þegar tíminn kemur, þinglega meðferð á Alþingi. Þannig stendur hins vegar á nú í aðdraganda kosninga að ekki mun vinnast tími til þess að ljúka slíkri meðferð, slíkum undirbúningi. Með frumvarpinu er því lagt til að við stígum fyrsta skrefið í átt að heildarendurskoðun. Þannig erum við einungis að leggja til að hér verði stöðvuð sú framkvæmd sem fylgt hefur verið um áratugaskeið, þ.e. að stjórnvöld veiti uppreist æru samkvæmt heimildarákvæði 85. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Verði frumvarpið að lögum er eins og áður segir óhjákvæmilegt að vinnu við heildarendurskoðun verði fram haldið og að Alþingi samþykki innan tíðar ný lög þar sem afstaða er tekin til ýmissa álitaefna sem reifuð eru í greinargerð með frumvarpinu.

Það má segja að eins og málið hefur verið unnið fram til þessa hafi verið horft á þá nauðsynlegu vinnu sem ráðast þarf í sem tvo áfanga. Í þeim skilningi erum við að leggja til að fyrri áfanginn verði kláraður. Heildarendurskoðunin, þar sem menn fara yfir allt lagasafnið og gá eftir því hvar óflekkað mannorð er að finna sem skilyrði fyrir borgaralegum réttindum, er þá síðari áfanginn.

Ég myndi jafnvel vilja bæta því við að ekki er ólíklegt að niðurstaðan verði á einhverjum tímapunkti að menn vilji síðan fara í þriðja áfangann og velta því fyrir sér hvort ástæða sé til að staldra víðar við í réttindum sem hingað til hafa ekki krafist óflekkaðs mannorðs og spyrja: Ja, þar sem við höfum víða í lögum slík ákvæði sem gera kröfu um að menn hafi ekki gerst brotlegir við lög þannig að tiltekin refsing hafi verið dæmd þá er mikilvægt að jafnræðis sé gætt milli starfsstétta, milli ólíkra réttinda. Það er auðvelt í sjálfu sér að láta fram í hugann streyma ýmis dæmi sem myndu orka tvímælis að við myndum ekkert að fjalla um ef ráðast á í heildarskoðun þessara mála á annað borð. Ég hef hins vegar fullan skilning á því að eins og mál hafa þróast á þessu ári og eins og við höfum í þeirri umræðu beint sjónum okkar að gildandi lagaákvæðum, að í þessum tveimur áföngum sé eingöngu um eins konar tiltekt í þessu efni að ræða.

Mig langar til þess að vekja sérstaka athygli á sögulegu yfirliti sem er að finna í greinargerð með frumvarpinu og umfjöllun um norrænan rétt. Það er t.d. athyglisvert að sjá að Svíar afnámu heimildir til að svipta menn borgaralegum réttindum á 19. öld. Það er ekki að finna ákvæði um uppreist æru í núgildandi hegningarlögum í Svíþjóð. Það væri síðan hægt að velta fyrir sér ýmsum lagalegum og siðferðilegum álitamálum, stjórnarskrárvörðum réttindum, persónuréttindum, atvinnufrelsisréttindum og slíkum þáttum í þessu samhengi. Eflaust verður það hluti hinnar almennu umræðu þegar að því kemur. En á þessum tímapunkti erum við sem sagt að taka áfanga. Jafnvel þótt við séum bara að leggja til að þingið stigi þetta fyrsta skref, ljúki þessum fyrsta áfanga endurskoðunarinnar, þá koma engu að síður upp ýmis álitamál sem reynt er að bregðast við í 4. kafla greinargerðarinnar, á bls. 4 og 5 í frumvarpinu. Þar er samandregið komist að þeirri niðurstöðu að það standist skoðun að gera þá breytingu sem hér er lögð til enda sé það yfirlýst markmið þingsins að ráðast í beinu framhaldi í frekari breytingar. Það má segja að með ákveðnum hætti sé lögmæti þessara væntanlegu laga, verði frumvarpið samþykkt, dálítið háð því að Alþingi rísi undir því, sem látið er fylgja hér, að vinnunni verði lokið, þessari heildarendurskoðun. Um þetta er fjallað í 4. kafla.

Ég vil síðan undir lok máls míns hvetja til þess að frumvarpið gangi til allsherjar- og menntamálanefndar og fái þar viðeigandi umfjöllun jafnvel þótt við gerum ráð fyrir því að þingið ljúki störfum í dag. Ég tel það ekki óraunhæft sökum þess að málið hefur verið til skoðunar nú svo vikum skiptir. Ráðuneytið er reiðubúið til þess að veita öll svör og skoða öll álitamál sem upp kunna að koma í þessu sambandi. Eins og hér hefur verið rakið hefur málið verið undirbúið í marga mánuði í raun og veru og heildarendurskoðun hefur staðið yfir þannig að ég tel ekki neina goðgá að afgreiða málið eins og hér er lagt til. Mér finnst hins vegar að þingið eigi ekki að taka því af neinni léttúð að það eru ákveðnar stjórnskipulegar spurningar sem menn þurfa að taka afstöðu til.

Ein af afleiðingum þess að ljúka þessum áfanga án þess að heildarendurskoðun hafi átt sér stað er að þá skapast visst lagalegt tómarúm. Ég bendi t.d. á að kjörgengi eru réttindi sem hafa hingað til verið varin af því fyrirkomulagi sem við tökum hér til endurskoðunar og í raun og veru afnemum. Það má segja að þeirri spurningu sé ósvarað í lögum með hvaða hætti menn geti að nýju endurheimt kjörgengi þegar fyrirkomulagið við að reisa upp æru og öðlast með því óflekkað mannorð hefur verið afmáð úr hegningarlögunum. Þá stendur eftir spurningin hvernig eigi að ljúka þeirri meðferð. Svarið við því verður að koma í því sem ég mundi vilja kalla bandorminn, það kemur í bandorminum sem fylgir. Ég ætla ekki að setja af stað langa umræðu um öll þau mál sem þar koma fram. Ég vildi bara hafa minnst á það lauslega að mér finnst stundum í almennri umræðu um þessi mál að það sé vanmetið hversu vandasamt verk það verður að fara yfir hvert og eitt einasta tilvik og spyrja: Með hvaða hætti eiga menn að nýju að öðlast þau réttindi sem hér eru undir, hvort sem það eru lögmannsréttindi eða einhver önnur almenn réttindi, réttindi til þess að taka sæti í stjórnum hlutafélaga o.s.frv.? Það verður vandasamt verk fyrir Alþingi að velta fyrir sér öllum spurningunum sem upp kunna að koma vegna ýmissa annarra starfsstétta sem ekki hafa verið undir í þessari umræðu hingað til. Þar vísa ég aftur til jafnræðissjónarmiða sem hljóta að koma til skoðunar.

Að öðru leyti vil ég þakka fyrir ágæta samstöðu sem hefur ríkt milli formanna flokkanna um þetta. Ég vænti þess að það geti tekist breið samstaða um málið í þinginu eftir nauðsynlega nefndarvinnu.