147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[14:30]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér er skammtaður afskaplega naumur tími til að svara risavöxnum spurningum. Í fyrsta lagi: Það er ekkert vandamál að skilgreina það í kosningalögum hvenær menn hafa náð aftur óflekkuðu mannorði. Við gerum það í kosningalögum. Það kallar ekki á breytingar á stjórnarskránni. Það ætti að vera augljóst.

Varðandi það hvort lögmannastéttin sé einhvern veginn þannig sniðin að það þurfi sérstaklega að gæta sín á þeim sem sinna slíkum störfum verð ég bara að mótmæla. Ég tel að það standi engin rök til þess að taka lögmannastéttina eitthvað sérstaklega út úr. Þá á ekki heldur að tala bara um lögmenn og endurskoðendur heldur fjölmarga aðra sem gegna margvíslegum viðkvæmum störfum, ef menn vilja fara þá braut. Ég sé það þannig fyrir mér í framtíðinni að fara þurfi yfir lög um lögmenn, lög um endurskoðendur, já, hvort tveggja, en fjölmargar aðrar stéttir sömuleiðis. Ég ætla ekki að fara út í þá umræðu sem það myndi kalla á. En mér finnst það liggja í hlutarins eðli. Það eru svo margir sem gegna svo miklum viðkvæmum trúnaðarstörfum. Það væri hægt að nefna sálfræðinga, hjúkrunarfræðinga í barnaskólum, við gætum talað um lækna. Hvar endar þessi listi í raun og veru? Það verður afskaplega vandasamt fyrir þingið að vinna það verk.

Ég ætla hins vegar að segja að það skref sem hér er stigið er mikilvægt. Við það frumvarp sem spurt er um hér hafði ég sérstaklega þær athugasemdir að því hefði verið stillt þannig upp að Lögmannafélagið ætti að veita umsögn um hvort rétt væri að lögmenn fengju að nýju réttindi sín. Þar átti Lögmannafélagið að gá eftir almenningsálitinu, um hvort gott væri að menn fengju að nýju lögmannsréttindin. (Forseti hringir.) Ég segi bara fyrir mitt leyti: Það er algerlega fráleit hugmynd, alveg jafn fráleit og að dómstólar eigi ekki bara að dæma eftir lögum heldur líka almenningsálitinu.