147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[15:16]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Í fyrsta lagi er það alveg rétt að það frumvarp sem hér er til skoðunar er hluti af viðbrögðum okkar á Alþingi, þar með talin fráfarandi ríkisstjórn, við þessu ákalli í samfélaginu. Ég vona að það hafi verið alveg skýrt af minni hálfu. En þegar ég segi að þetta gangi ekki nógu langt hef ég fyrst og fremst áhyggjur af því sem er umfram það sem fram kemur í greinargerðinni og varðar það sem stundum er kallað bandormurinn, þ.e. þá lagabálka aðra sem fara þarf inn í vegna starfsréttinda. Þá er ég að tala um að við þurfum að fara miklu nær rótunum í málum sem þessum, þ.e. stöðu brotaþola kynferðisbrota. Við þurfum að fara nær rótunum inni í samfélaginu öllu. Því megum við ekki gleyma. Þetta snýst ekki bara um uppreist æru og framkvæmd þeirra laga eða það hvernig brotamenn, kynferðisbrotamenn eða aðrir brotamenn, koma aftur inn í samfélagið eða öðlast aftur starfsréttindi eða borgaraleg réttindi.

Ég vil síðan aðeins dvelja við það sem hv. þingmaður nefndi um mismunandi hlutverk ráðherra, eins og ég skildi hana, þ.e. að ráðherrum væri nokkur vandi á höndum því að þeir eru annars vegar embættismenn sem þurfa að lúta þeim reglum sem embættið felur í sér, og hins vegar pólitískir leiðtogar í sínum málaflokki. Og stundum fara þeir fyrir sínum eigin flokki að auki. Þeir þurfa því að freista þess að ná að halda jafnvægi á milli þessara þátta, að rækja skyldur sínar sem embættismenn þannig að það sé allt saman hafið yfir vafa. En jafnframt þurfa þeir að gæta að sambandi sínu við samstarfsflokkana, við kjósendur, við Alþingi o.s.frv. Mér finnst þetta mál vera gott dæmi um mál, og ég held að við munum sjá það þegar við lítum til baka, þar sem ráðherrar misstu sjónar (Forseti hringir.) á þeim hluta þess hlutverks að vera ráðherrar, þ.e. hinu pólitíska hlutverks sem snýst um trúnað við kjósendur, Alþingi og samstarfsflokka.