147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[15:34]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi hugnast mér ekki að við séum að takmarka borgararéttindi einstaklinga, hvað þá kjörgengi til Alþingis. Hins vegar, og er ég nú mikill varðmaður borgararéttinda, þá er alltaf ákveðið hagsmunamat sem fram fer þegar svona er gert. Það er kannski prófsteinn sem við sem erum að meðhöndla þessi mál getum lagt fyrir okkur, hvort við getum sætt okkur við þessa breytingu eins og hún liggur fyrir núna vegna þeirrar réttaróvissu sem í henni felst fyrir þá einstaklinga sem mögulega gætu sóst eftir því að bjóða sig fram til þings og hafa til þess enga leið.

Mannréttindadómstóllinn hefur tiltekið þrjú skilyrði sem þarf að uppfylla til þess að skerða megi þessi helstu borgararéttindi sem eru ekki algjörlega yfir allt hafin, eins og t.d. réttur til lífs eða bann við pyndingum, sem sagt skerðanleg borgararéttindi. Til að mega skerða þau borgararéttindi þarf að uppfylla þrjú skilyrði. Fyrsta skilyrðið er einfaldlega að það séu lög fyrir hendi sem skerða þessi réttindi. Við þurfum að spyrja okkur: Eru eða verða lög fyrir hendi sem skerða þessi réttindi? Það mætti færa rök fyrir því. Í öðru lagi þurfa að vera málefnalegar eða réttara sagt lögmætar ástæður fyrir þeirri lagasetningu sem skerðir þau réttindi sem um ræðir. Það gæti t.d. verið vegna almannahags sem er mjög breitt hugtak sem stjórnvöld beita yfirleitt fyrir sig.

Ef við myndum svo segja að þessi tvö skilyrði séu uppfyllt, sem er alla jafna raunin í þessum málum þegar við setjum fullgild lög á Alþingi og við höfum réttar ástæður að baki, þá liggur bara fyrir síðasta matsatriðið sem er hvort þessi skerðing sé nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi. Þar fer þetta mat fram sem um ræðir.

Það er kannski þar sem við höfum helst verið að tapa, við vegum ekki og metum almannahagsmuni á móti réttindum þeirra einstaklinga sem verða fyrir því að borgararéttindi þeirra séu skert. Þetta er leiðbeinandi frá Mannréttindadómstólnum um hvað telst (Forseti hringir.) vera réttlát skerðing á borgararéttindum. Ég kem að hinu í seinna andsvari.