147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

kosningar til Alþingis.

112. mál
[16:21]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Jón Steindór Valdimarsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi nú bara nota tækifærið og taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Auðvitað þarf þetta að vera í varanlegra horfi. Tímarnir breytast. Ef menn hefðu spáð því fyrir nokkrum árum síðan að hér værum við með kosningar svona ört eins og raun ber vitni held ég að ekki hefði verið mikið mark tekið á því. Þannig að það þarf tvímælalaust að breyta þessu. Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn og vona að nýju þingi veitist nú ráðrúm til að gera nauðsynlegar breytingar á kosningalögum sem taka þarf til skoðunar áður en næst verður boðað til kosninga þannig að ekki þurfi í fjórða sinn að bera fram frumvarp af þessu tagi. Ég ætlast nú ekki til sérstaks andsvars af hálfu þingmannsins en vildi koma þessu á framfæri.