147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[16:29]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Frumvarpið sem hér er mælt fyrir snýst um breytingu á lögum um útlendinga hvað varðar málsmeðferðartíma. Flutningsmenn þess eru auk mín hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Benedikt Jóhannesson, Óttarr Proppé og Logi Einarsson, og eru það þingmenn allra flokka á Alþingi utan Sjálfstæðisflokksins.

Lög um útlendinga eru tiltölulega ný. Það var fyrrverandi hæstv. innanríkisráðherra, Ólöf Nordal, sem lagði fram heildarendurskoðun á lögum um útlendinga sem byggði á vinnu þverpólitískrar þingmannanefndar. Aðdraganda þeirrar vinnu má einnig rekja aftur til fyrrverandi hæstv. ráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Ögmundar Jónassonar sem hófu vinnu við heildarendurskoðun þessara laga.

Það liggur fyrir að hér er um flókinn málaflokk að ræða þar sem miklu skiptir að fylgst sé mjög vel með framkvæmd laganna. Það var ótrúlega mikilvægur áfangi, tel ég vera, þegar náðist í raun þverpólitísk samstaða á Alþingi um þennan flókna og viðkvæma en mikilvæga málaflokk í lögum um útlendinga. Hins vegar skiptir máli þegar reynsla kemst á þessi lög að fylgst sé vel með framkvæmd þeirra laga og löggjöfin virki þannig að löggjafinn sé sáttur við það hvernig henni er fylgt eftir. Það er ekki hægt að leyna því að málefni barna í hópi hælisleitenda hafa verið mjög áberandi á Íslandi að undanförnu, barna sem hefur verið vísað úr landi. Þessi framkvæmd hefur vakið spurningar um það hvort verið sé að fylgja eftir þeim vilja löggjafans sem birtist í lögum um útlendinga þar sem rætt er um umsækjendur um alþjóðlega vernd sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu, samanber 6. tölulið 3. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við frumvarpið, þar sem vísað er í 2. mgr. 36. gr. frumvarps sem varðar gildandi lög um útlendinga, er rakið hvað felst í því þegar umsækjendur eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Það getur til að mynda tengst heilsufari, þungun, kynhneigð, kynþætti, kyni eða þeirri stöðu að vera fylgdarlaust barn. Það er skilgreint auðvitað í lögunum á öðrum stað en ekki í þessari tilteknu grein sem hér er vitnað til.

Við meðferð Alþingis á frumvarpi til laga um útlendinga var þessi upptalning tekin út úr 36. gr., en var þó áréttað í nefndaráliti nefndarinnar á þeim tíma að það ætti ekki að hafa áhrif til breyttrar túlkunar á frumvarpinu. En vegna þeirra mála sem hér hafa komið upp um börn í hópi hælisleitenda sem eiga yfir höfði sér brottvísun hafa hins vegar vaknað þær spurningar hvort þessi breyting sem var gerð á frumvarpinu í meðförum þingsins hafi haft áhrif á framkvæmd laganna. Er þar vitnað sérstaklega til kærunefndar útlendingamála þar sem fram kom að nefndin teldi þessa breytingu á frumvarpinu hafa skipt máli við úrskurði sína. Þess vegna teljum við sem stöndum að frumvarpinu, flutningsmenn þess, að það sé eðlilegt í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin að það hefur verið boðað til kosninga eftir harla skamman tíma, þá sé mikilvægt að gera tímabundna breytingu á lögum um útlendinga til þess að veita þeim börnum sem eiga yfir höfði sér brottvísun skjól, tímabundið skjól, og leggja það líka til eins og lagt er til í greinargerð með frumvarpinu að farið verði yfir framkvæmd laganna og gerðar á þeim breytingar ef sýnt þykir að framkvæmdin sé ekki í takt við vilja löggjafans.

Því er það lagt til að við bætist tvö ný ákvæði til bráðabirgða þar sem lagt er til að frestur í 2. málslið 2. mgr. 36. gr. laganna verði styttur úr 12 mánuðum í níu, en í því felst að hafi meira en níu mánuðir liðið frá því umsókn um alþjóðlega vernd hafi fyrst borist íslenskum stjórnvöldum skuli almennt taka hana til efnislegrar meðferðar. Jafnframt er þá eðlilegt að taka til efnislegrar meðferðar umsókn foreldra sem fara með forsjá barnsins og eftir atvikum systkina á grundvelli 1. málsliðar 2. mgr. 36. gr. laganna.

Hins vegar er lagt til að frestur í 1. málslið 2. mgr. 74. gr. laganna verði styttur úr 18 mánuðum í 15. Í því felst að heimilt verður að veita barni sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 15 mánaða frá því það sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að uppfylltum öðrum skilyrðum. Jafnframt væri þá almennt eðlilegt að veita foreldrum sem fara með forsjá barnsins og eftir atvikum systkinum dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laganna til að tryggja einingu fjölskyldunnar að uppfylltum öðrum skilyrðum.

Ætla má að kærunefnd útlendingamála hafi við gildistöku laganna þegar fellt úrskurði um að synja um efnismeðferð eða dvalarleyfi í tilvikum einhverra barna sem 1. mgr. a-liðar 1. gr. og 1. mgr. b-liðar 1. gr. frumvarpsins — nei, þetta getur nú ekki hafa verið rétt, jú, þetta var rétt, þetta er alveg með ólíkindum — taka til en börnin þó ekki enn yfirgefið landið. Með 2. mgr. a-liðar 1. gr. og 2. mgr. b-liðar 1. gr. er þeim tryggður réttur til endurupptöku á málum sínum. Veittur er tveggja vikna frestur frá gildistöku laganna til að fara fram á endurupptöku. Nýti barn ekki heimild innan frestsins stendur úrskurður kærunefndarinnar sem fæli almennt í sér að barninu yrði gert að yfirgefa landið. Barni skal ekki gert að yfirgefa landið innan frestsins eða á meðan meðferð endurupptöku máls stendur. Jafnframt væri eðlilegt að gera ekki heldur foreldrum sem fara með forsjá barnsins, eða eftir atvikum systkinum, að yfirgefa landið.

Lagt er til að breytingarnar taki að sinni aðeins til umsókna sem borist hafa fyrir gildistöku laganna. Segja má að með því móti gefist níu mánaða svigrúm frá gildistöku til að ákveða æskilegt framhald enda væri það fyrst níu mánuðum eftir gildistöku sem breytingar af þessu tagi gætu haft bein áhrif á umsóknir sem berast eftir gildistöku. Að mati okkar sem stöndum að þessu máli er eðlilegt að veita slíkt svigrúm svo unnt verði að meta betur áhrif breytinganna og nýtt þing geti tekið afstöðu til þess hvernig æskilegt sé að málinu verði fram haldið.

Ég ætla ekki að lengja þetta mál. Ég gæti haldið hér langa ræðu um mínar skoðanir á því hvernig eigi að standa að móttöku hælisleitenda, flóttafólks og hvort við Íslendingar getum gert meira í því sem ég tel vera. En um það snýst þetta mál ekki. Þetta mál snýst um tímabundið ákvæði sem veitir börnum og fjölskyldum þeirra skjól og Alþingi svigrúm til þess, að loknum kosningum, að fara yfir framkvæmd útlendingalaga og leggja til breytingar á þeim ef nauðsyn þykir. Ég held að það sé alveg gríðarlega mikilvægt að náðst hafi samkomulag um að þetta mál verði afgreitt. Þá getum við átt hina pólitísku umræðu um það þegar nýtt þing kemur saman og þjóðin hefur endurnýjað umboð sitt til þeirra sem hér eiga að sitja og um leið gætt að því í þessu máli sem brennur a.m.k. á okkur mörgum að þessum viðkvæmu einstaklingum sé á meðan komið í skjól.

Ég vonast til þess að breið samstaða náist um þetta mál og legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.