147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[16:40]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Framsögumaður lýsti í framsögu sinni markmiði og tilgangi þessa frumvarps sem er, ef ég skildi rétt, að koma börnum í skjól þar til sýnt væri hvort framkvæmdin við afgreiðslu hælisumsókna í dag væri í samræmi við löggjafarvilja.

Nú langar mig að spyrja hv. þingmann hvort eitthvað liggi fyrir um hvort framkvæmdin sé ekki í samræmi við löggjafarviljann eða hvort hún sé ekki í samræmi við lögin eins og þau eru, og voru samþykkt af öllum flokkum undir lok síðasta kjörtímabils.

Mig langar líka að spyrja um hvaða börn það eru sem hér er verið að koma í skjól, eins og það er orðað, því að af frumvarpinu að dæma þá er í rauninni sólarlagsákvæði í þessu. Það væri gott að fá upplýsingar um hvaða börnum nákvæmlega væri verið að koma í skjól.