147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[17:03]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Á síðasta kjörtímabili var unnin mjög góð þverpólitísk vinna í ráðuneyti því sem dómsmálaráðherra núverandi starfsstjórnar fer fyrir. Það var alveg skýr vilji löggjafans um þessi mál. Það virðist því miður hafa orðið þannig að ein tiltekin grein hafi verið felld úr lagatextanum og sett í greinargerð. Sem hefur leitt til þess að matsnefndin, kærunefndin, hefur fjallað um málin án þess að fara eftir vilja löggjafans. Því hlýtur það að liggja beinast við að sú lagagrein verði þá sett aftur inn í lagabálkinn. Ég vildi bara halda því til haga því að mér finnst þau orð sem hér hafa komið fram hjá starfsstjórnardómsmálaráðherra einhvern veginn ekki lýsa þeim anda sem hér var á þingi á síðasta kjörtímabili.

En ég er með spurningu. Það kom fram í máli ráðherrans að ekki væri til ákveðin þekking hér til að taka á móti hælisleitendum sem fjallað er um í þessum lögum. Ég vil bara fá að vita nákvæmlega hvað ráðherrann á við, lið fyrir lið.