147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[17:08]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Ég frábið mér auðvitað, virðulegur forseti, öll brigsl um eitthvert hatur í garð barna (Gripið fram í.) eða óvild eða skilningsleysi í garð barna á flótta. Þetta er að mínu mati ekki boðlegur málflutningur. Ég vil benda á að við Íslendingar höfum verið að veita 90 einstaklingum hæli, þar á meðal (Gripið fram í.) eru börn. Við viljum standa vörð um þau börn sem eru í mestri neyð, ekki börnin sem eru vinsælust í fjölmiðlaumfjöllun eða ná eyrum fjölmiðla. Við viljum ná (Gripið fram í.) til barna og aðstoða þau sem eru í mestri neyð. Svo því sé haldið til haga.

Hér var spurt um hvaða faglegu þjónustu og þekkingu okkur skorti hér. Það nægir að nefna fagaðila í heilbrigðisþjónustu. Hingað leitar fólk sem er með ör á sálinni eftir slíka lífsreynslu sem, sem betur fer, ekki nokkur Íslendingur þekkir, (Forseti hringir.) ekki af eigin raun, og varla heldur af afspurn. Hér vantar alla fagþekkingu til að takast á við vanda þessa fólks sem kemur hingað með þessi sálarör. Og það vantar fleiri (Forseti hringir.) sambærilega fagaðila.