147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[17:10]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að þessi ræða hæstv. ráðherra veldur mér nokkrum áhyggjum nú í aðdraganda kosninga. Hér kemur hún fram með slíka harðlínuafstöðu í garð hælisleitenda og flóttafólks sem við höfum ekki heyrt, þessa tóna, hér í þingsal áður. Ekki nema í atkvæðaskýringum þingmanna sem treystu sér ekki til að standa með þverpólitískri sátt um bætta löggjöf til handa útlendingum í anda alþjóðasáttmála og mannúðar.

Það veldur mér áhyggjum að ráðherra málaflokksins skuli vera á þessari harðlínuskoðun. Mig langar að spyrja um tvennt. Mér finnst koma fram í máli hennar að henni þyki ekki mikið til um aðdraganda þeirrar löggjafar sem þar var samþykkt þar sem hún fullyrðir um hver hafi verið vilji löggjafans í þeim efnum og gerir jafnframt lítið úr frumvarpi sem lagt er fram af fulltrúum sex flokka, raunar formönnum sex flokka, á Alþingi og kallar það eitthvað sem hafi verið ákveðið í reykfylltum bakherbergjum. Þessi reykfylltu bakherbergi, virðulegi forseti, heita Alþingi; Alþingi Íslendinga sem er löggjafarsamkoman. Það skyldi þó ekki vera svo að af því að bakherbergið er ekki Valhöll sé það hæstv. ráðherra ekki þóknanlegt?

Það eru sex formenn sex flokka sem aðhyllast ekki harðlínuafstöðu ráðherrans. Ég vil spyrja að því. Ráðherrann talaði um það, undir stefnuræðu forsætisráðherra fyrir örstuttu, þegar það hentaði hennar pólitísku markmiðum, að endurvekja þyrfti þverpólitíska vinnu til að halda utan um framkvæmd útlendingalaga.

Nú vil ég spyrja ráðherrann hvort hún styðji enn þá hugmynd að þverpólitísk vinna sé besta nálgunin í þessum málaflokki. (Forseti hringir.) Og síðan, þar sem ráðherrann segir að hún voni að málið nái ekki fram að ganga, hvort hún sé ekki aðili að samkomulagi hér um þinglok.