147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[17:12]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er engin harðlínustefna sem felst í því þegar ráðherra þessa málaflokks kemur hér og bendir á augljósa annmarka, bæði augljósa og líka annmarka sem ekki eru leikmönnum jafn ljósir. Hér hefur verið bent á, og ég hef talið það skyldu mína, þá annmarka.

Þegar ég vísaði til aðdraganda þessa máls, vinnu við þetta frumvarp, hugnaðist mér það ekki þegar ég fékk þær upplýsingar að upphaflega var gert ráð fyrir lengri tímamörkum en þarna koma fram í 1. og 2. gr. Síðan, eftir einhverja talningu og samanburð við tiltekin mál sem eru til umfjöllunar í stjórnsýslunni, hafi verið fallist á að kannski þyrfti ekki að hafa þessi tímamörk svona löng heldur til dæmis að á föstudaginn næsta væri kominn sá tími sem tilteknir umsækjendur hefðu verið hér á landinu þannig að þeir myndu örugglega falla undir þetta frumvarp og fengju skjól af þessu frumvarpi.

Ég spyr: Hvað með börnin sem koma hingað á morgun eftir að frumvarpið nær fram að ganga, geri það það? Hvað með þau? Eða börnin sem koma í næstu viku? Hvaða skjól eiga þau að fá? Mörg hver koma kannski úr erfiðari aðstæðum en þau börn sem koma frá Schengen-ríki eða öðrum Evrópusambandsríkjum. Hver ætlar að taka upp hanskann fyrir þau börn? Hver ætlar að gera það?