147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[17:21]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef fullan skilning á því þegar hv. þingmenn brenna fyrir málum sínum og vilja fá framgang sinna hjartans mála. Sumir koma jafnvel hingað til þings í upphafi kjörtímabils með eitt mál og brenna í skinninu; ég ætla ekkert að gera lítið úr þeim tilfinningum. Ég benti hins vegar á þessa umræðu um stjórnarskrárbreytingu í samhengi við þá breytingu sem hér hefur verið mælt fyrir að gerð verði á útlendingalögunum. Ég ætla ekki að jafna saman breytingum á útlendingalögum og stjórnarskrá en hins vegar er um að ræða stórkostlega breytingu á útlendingalögum sem getur haft veruleg áhrif bæði á þá sem hér búa og ekki síður þá sem hingað leita með ósk um skjól. Ég tel ekki nokkurn einasta brag á því að slíkt mál sé afgreitt hér á nokkrum klukkustundum án nokkurrar þinglegrar meðferðar.